Vegna talsverðrar fylgisdreifingar eru líkur á því að flókið gæti reynst að mynda ríkisstjórn eftir næstu kosningar.
Ljóst er að samsteypustjórn er á borðinu og svo gæti farið að hægri menn og vinstri menn gætu þurft að vinna saman aftur að því að mynda nýja stjórn.
Bergþór Ólason úr Miðflokki, Sigmar Guðmundsson úr Viðreisn og Bryndís Haraldsdóttir úr Sjálfstæðisflokki voru spurð hvort þau gætu ekki verið í sömu stöðu við næstu ríkisstjórnarmyndun, að þau gætu þurft að vinna þvert yfir hinn pólitíska ás.
Bergþór segist vona að skýrir valkostir verði til ríkisstjórnarmyndunar. Annað hvort frá miðju til vinstri eða frá miðju til hægri.
„Ég vona að þessi tilraun, samsuðustjórn frá vinstri til hægri, verði ekki aftur gerð,“ segir Bergþór.
Sigmar svarar því ekki hvort Viðreisn horfi einna helst til vinstri af þessum þremur flokkum.
„Nei, við göngum óbundin til kosninga,“ segir Sigmar. Bætir hann því við að fyrirséð sé að flókið verði að mynda ríkisstjórn.
Bryndís viðurkennir að það hafi reynst þrautinni þyngri að vera í ríkisstjórn með vinstri flokki.
„Ég hræðist mjög vinstri stjórn í þessu landi. Ég held að það væri það versta sem gæti komið fyrir íslenskt samfélag akkúrat núna,“ segir Bryndís.