Jón sækist eftir 2. sæti í Kraganum

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, var kjörinn í 2. sæti á …
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, var kjörinn í 2. sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi í prófkjöri fyrir síðust þingkosningar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hyggst sækjast eftir því að halda 2. sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi. Þór­dís Kol­brún R. Gylfa­dótt­ir, vara­formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, íhug­ar á sama tíma al­var­lega að bjóða sig fram fyr­ir flokk­inn í Suðvesturkjördæmi.

„Ég hef fundið fyrir mikilli hvatningu í mínu kjördæmi sem ég er þakklátur fyrir. Ég hef gefið það út við formann kjördæmisráðs hjá okkur að ég gefi kost á mér á lista flokksins fyrir komandi kosningar eins og ég hef gert undanfarin ár og leita eftir stuðningi í það sæti sem ég skipa á listanum,“ segir Jón í samtali við mbl.is og bætir við:

„Svo er það bara trúnaðarmanna flokksins í kjördæminu að ákveða með endanlega skipun á lista flokksins,“ segir hann.

Þórdís íhugar að sækjast eftir 2. sæti á lista

Morgunblaðið greindi frá því í dag að Þór­dís íhug­i nú al­var­lega að bjóða sig fram fyr­ir flokk­inn í Suðvesturkjördæmi en hún er núna oddviti flokksins í Norðvesturkjördæmi. Enn fremur staðfesti hún að ef hún myndi fara fram þá myndi hún sækjast eftir 2. sæti á lista. 

„Ég hef búið í áratug í Suðvesturkjördæmi. Við fjölskyldan höfum gert upp við okkur að við séum ekki að fara úr Kópavoginum. Við hjónin erum að ala upp börnin okkar hér þar sem þau ganga í skóla, stunda íþróttir og eiga sína vini. Þegar ár líða er ólíklegra að maður fari aftur í heimahaga, og þá er kannski rétt að gefa öðrum rými til þess að vinna fyrir kjördæmið,“ sagði Þórdís í samtali við Morgunblaðið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert