Kjörstjórn býr sig undir kjör

Kristín Edwald, formaður landskjörstjórnar.
Kristín Edwald, formaður landskjörstjórnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Að því gefnu að Halla Tómasdóttir forseti Íslands samþykki þingrofstillögu Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra á fimmtudag má ætla að Íslendingar gangi að kjörborðinu 30. nóvember. Stjórnmálaflokkar sem ætla að gefa kost á sér í komandi kosningum munu þurfa að skila inn framboði fyrir 31. október.

Þetta segir Kristín Edwald formaður landskjörstjórnar í samtali við Morgunblaðið. Kjörstjórnin kom saman til fundar í gær þar sem farið var yfir næstu skref fram að alþingiskosningum og eftir kosningar.

„Við vorum að leggja fyrir okkur tímalínuna og slíkt,“ segir Kristín.

Auglýsa kjördag sem fyrst

Verði gengið til kosninga 30. nóvember ber að auglýsa kjördaginn við fyrsta tækifæri. Hún segir viðmiðunardag kjörskrár vera 32 dögum fyrir kjördag, eða 29. október. Þann 31. október ber að auglýsa kjörskrá, eða þrjátíu dögum fyrir kosningar. Framboðsfrestur stjórnmálaflokka rennur út 31. október, verði kosið 30. nóvember, og þá verða framboðslistar að vera tilbúnir.

Kristín segir að lögum samkvæmt yrði hægt að greiða utan kjörfundar 23 dögum fyrir kjördag eða fimmtudaginn 7. nóvember.

Í raun og veru allt tilbúið

Spurð hvort þau séu viðbúin slæmri færð á kjördegi segir Kristín svo vera.

„Auðvitað getur slæmt veður og slæm færð haft áhrif. Bæði á kosningaþátttöku og flutning kjörgagna og kjörkassa á talningarstað til dæmis,“ segir hún. Heimild sé fyrir því að vera með annan talningarstað innan kjördæmisins ef svo ber undir, til dæmis vegna færðar.

„Yfirkjörstjórn kjördæmis getur ákveðið að það sé talið hjá umdæmiskjörstjórn á öðrum stað í kjördæminu.“ Spurð hvort komin sé mynd á skipulag komandi kosninga segir hún svo vera. „Það er í raun og veru allt tilbúið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert