Lögregla sótti barn inn á klósett

Oscar Andres Florez Bocanegra er vinsæll meðal samnemenda og býður …
Oscar Andres Florez Bocanegra er vinsæll meðal samnemenda og býður af sér mikinn þokka, sextán ára piltur frá Kólumbíu. Í dag vísa íslensk yfirvöld honum úr landi eins og fjölda annarra barna og ungmenna gegnum tíðina. Ljósmynd/Aðsend

„Þessi drengur kom hingað til landsins fyrir tveimur árum og þá kynntumst við fjölskyldan honum, hann var í bekk með syni mínum, vinur barnanna okkar og var hérna öllum stundum,“ segir Sonja Magnúsdóttir, annar eigenda Fitness Sport, sem segir mbl.is óhugnanlega sögu af unglingspilti frá Kólumbíu, Oscar Andres Florez Bocanegra, sem er hvers manns hugljúfi en sætti slíku ofbeldi af hálfu föður síns að viðkvæmir lesendur eru beðnir að sitja við lestur þessa viðtals.

Nú hyggjast íslensk innflytjendayfirvöld senda þá feðga úr landi árdegis í dag, þriðjudag, til Kólumbíu þrátt fyrir að líklegt teljist að faðir Oscars muni halda uppteknum hætti og ganga í skrokk á syni sínum.

Hafa íslensk barnaverndaryfirvöld og lögregla vitneskju sem hafin er yfir skynsamlegan vafa um ofbeldið en hyggjast engu að síður senda þá feðga saman úr landi.

Í uppnámi i allan gærdag

Oscar hefur eignast góða vini í Hafnarfirðinum, nýtur vinsælda í hinum gamalgróna framhaldsskóla Hafnfirðinga og hefur um langa hríð verið sem grár köttur á heimili Sonju og fjölskyldu sem blöskra þau örlög sem íslensk stjórnvöld nú ætla Oscari, en þeirra feðga bíða óblíð örlög í þessu stærsta kókaínframleiðsluríki heims þar sem spilling og ofbeldi er reglan fremur en undantekningin.

„Ég er búin að vera í svo miklu uppnámi í allan dag,“ segir Sonja og þar býr engin uppgerð að baki. Móðirin hafnfirska þarf snemma í viðtalinu að taka sér málhvíld og anda djúpt.

Móðureðlið er sagt einn öflugasti drifkraftur í eðli jarðarbúa og hún er löngu farin að líta á geðþekka kólumbíska piltinn sem eigið barn auk þess sem maður hennar, Svavar Jóhannsson, hinn eigandi Fitness Sport, tók honum opnum örmum, enda tók Oscar snemma ástfóstri við íslensku fjölskylduna og leitaði huggunar í faðmi hennar eftir ítrekaðar barsmíðar og köguryrði föður síns.

„Hann hefur verið meira og minna hjá okkur í heilt ár og að lokum var hann farinn að vera hérna fram undir miðnætti og þá fór mig að gruna að ekki væri allt með felldu heima hjá honum, hann var greinilega logandi hræddur við að fara þangað,“ segir Sonja og þarf engan sálfræðing til að greina að móðirin hafnfirska er með böggum hildar yfir örlögum unglingspilts frá Suður-Ameríku sem vann hug og hjörtu fjölskyldu hennar.

Grunur um andlegt ofbeldi

„Hann kom hérna ósofinn og svaf hérna þrjá tíma á dag, hann sagði okkur ekkert og við héldum bara að hann hefði áhyggjur af því að það ætti að senda fjölskylduna hans heim,“ segir Sonja og útskýrir að Oscar hafi verið á landinu með föður sínum og tveimur systrum en önnur þeirra er farin aftur til Kólumbíu þar sem hún fer huldu höfði og hefur skipt um nafn.

„Okkur var að lokum tekið að gruna að Oscar væri beittur andlegu ofbeldi, við vorum að reyna að hjálpa fjölskyldunni og þar kom að við sáum að faðir hans gerði grín að honum og níddist á honum,“ segir Sonja og nefnir dæmi um miskunnarleysi föðurins.

„Stórfjölskyldan“, kannski ekki blóðfjölskylda Oscars en hjá Sonju og Svavari …
„Stórfjölskyldan“, kannski ekki blóðfjölskylda Oscars en hjá Sonju og Svavari hefur hann sannarlega þrifist og kallar hann Sonju sína íslensku móður. Ljósmynd/Aðsend

Hann hafi sagt háðslega við son sinn að hann yrði sá sem fyrstur yrði sendur til baka til Kólumbíu og hlegið hrossahlátri þegar Oscar varð felmtri slegin við tíðindin.

„Hann gerði grín að honum, sagði að hann væri aumingi og enginn vildi hann,“ rifjar Sonja upp og segir enn fremur frá því þegar faðirinn sparkaði af alefli, nánast vítaspyrnusparki, í son sinn í anddyri hótels í Hafnarfirði í viðurvist fjölda vitna.

Lögregla á vettvang

„Af þessu voru gerðar vídeóupptökur og þá segir Oscar við pabba sinn að nú muni hann hringja í lögregluna og pabbinn hló bara háðslega og spurði hann hvorum þeirra Oscar héldi að yrði trúað,“ heldur Sonja frásögn sinni áfram.

Nema hvað að lögregla frá Hafnarfjarðarvarðstofunni mætir á vettvang.

„Ég fékk leyfi til að sitja hjá Oscari sem vildi ekki vera einn og á meðan ræðir lögregla við föður hans og þarna lofa lögregla og barnaverndarnefnd honum því að málið verði skoðað og ég fæ leyfi þessara aðila og Útlendingastofnunar til að fara með hann heim með mér og nú er hann búinn að búa hjá okkur síðan í maí,“ segir Sonja.

Fjölskyldunni kólumbísku er hætta búin snúi hún aftur til heimalandsins. Faðirinn rak þar veitingahús og í Kólumbíu þarfnast slík starfsemi ekki einvörðungu leyfa frá heilbrigðiseftirliti og öðrum opinberum stofnunum heldur þarf enn fremur að gjalda kónginum sem býr neðanjarðar þau gjöld sem hann innheimtir. Eru þar verndargjöld mafíuforkólfa og annarra sem síður þola dagsljósið en hefðbundin ráðuneyti.

Afarkostir settir fram

„Þarna eru glæpagengi og til er plagg frá aðalritara friðarmálaráðuneytis Kólumbíu sem staðfestir að ráðuneytið geti ekki verndað þessa fjölskyldu og þau eru þar nafngreind,“ segir Sonja og bætir því við að faðir Oscars hafi greitt verndargjöldin á meðan honum var stætt á því, en þegar skórinn tók að kreppa hafi hann neyðst til að leggja upp laupana. Mafían hafi þá gert honum þá afarkosti að annaðhvort greiddi hann ellegar Oscar, sonurinn sem hér er til umræðu, yrði tekinn af honum og hann annaðhvort drepinn eða gerður út sem barnaskæruliði í undirheimastríði kólumbískra eiturlyfjagengja.

Þessi drengur fær ekki að dvelja á Íslandi, þeir feðgar …
Þessi drengur fær ekki að dvelja á Íslandi, þeir feðgar verða sendir til Kólumbíu þar sem faðirinn hefur sætt líflátshótunum eftir að hafa komist í greiðsluþrot með verndargjöld til mafíu sem engu eirir. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er svo lygilegt að maður veit varla hvað maður á segja, þetta er bara eins og maður sé að segja frá einhverri bíómynd,“ segir Sonja.

Hún heldur frásögn sinni áfram og segir að Oscar fái endalaust að heyra að verið sé að vinna í máli hans og reyna að finna fósturfjölskyldu fyrir hann.

Ekkert leikrit

„Svo kemur áfallið í sumar,“ heldur Sonja áfram frásögn sinni sem varla getur annað en hljómað eins og einhvers konar staðleysukenndur skáldskapur í augum venjulegra Íslendinga. „Hann er boðaður á fund án réttargæslumanns, ég fékk ekki að vera viðstödd, og þegar hann mætir á fundinn er honum sagt að til standi að senda hann til baka til föður síns,“ segir hún og bendir á hve ranglega hafi verið staðið að fundinum sé litið til íslensks lagabókstafs.

Oscar bað málsfulltrúann sinn hjá flóttateymi barnaverndar Hafnarfjarðar um nafn og símanúmer hjá réttargæslumanni sínum, sem honum hafði verið tjáð að hann hefði, en er neitað um þessar upplýsingar.

Á þessum tímapunkti í frásögninni tekur Sonja það fram að atburðarásin sé ekkert leikrit. Blaðamaður fellst á það með henni.

„Í lok ágúst var föðurnum tilkynnt að þeim yrði vísað úr landi með átta tíma fyrirvara, þeir ættu bara að vera með tilbúnar pakkaðar töskur. Og síðan í ágúst er þetta hreinlega búið að vera helvíti á jörðu, hver dagur snýst um hvort lögreglan sé að fara að banka upp á á miðnætti,“ segir Sonja. Á þessum tíma hafi Oscar verið orðinn mjög kvíðinn en þá fékk Sonja vilyrði.

Bara að framfylgja skipunum

Henni var tjáð að lögregla mætti ekki til læknis eða í skóla til að handtaka börn. „Þannig að ég skutlaði honum í skólann í [gær]morgun þrátt fyrir að ég hefði einhverja vonda tilfinningu varðandi daginn,“ segir hún frá. „Svo mæta tveir óeinkennisklæddir lögreglumenn í skólann til hans, í Flensborg, þegar hann er á klósettinu og þeir sækja hann inn á klósett,“ segir Sonja og fær ekki dulið geðshræringu sína.

„Svo segja allar þessar stofnanir bara, sama hver það er, „ja, ég er bara að framfylgja skipunum, ef ég fæ boð um eitthvað annað breytist það“, allir eru að firra sig ábyrgð og að lokum tekur enginn ábyrgð á málinu,“ heldur Sonja áfram.

Lögreglan hafi svo hringt í hana og tilkynnt henni að Oscar sé í haldi hennar. Er henni tjáð að hún geti fengið að tala við drenginn en ekki hitta hann. „Hann kallar mig íslensku mömmuna sína,“ segir Sonja og röddin lækkar á meðan hún nær stjórn á tilfinningaólgu sinni. Að sögn lögreglu var hún ekki í þeirri lagalegu stöðu gagnvart Oscari að fá að hitta hann.

„Þetta er svo galið“

Þau Svavar sendu póst í júní til barnaverndarnefndar og báðu um pappíra er fylla þyrfti út til að fá að vera fósturforeldrar kólumbíska drengsins.

„Því var ekki svarað,“ segir Sonja af þunga, „þetta er svo galið. Og það sem stendur upp úr af okkar hálfu í þessu máli er að það má berja barn á Íslandi ef það er ekki með íslenska kennitölu,“ segir Sonja Magnúsdóttir að lokum og kveðst ekki geta á sér heilli tekið af áhyggjum af örlögum kólumbíska drengsins unga í Hafnarfirði sem íslensk yfirvöld hyggjast nú vísa úr landi ásamt ofbeldishneigðum föður.

„Þetta er svo galið. Og það sem stendur upp úr …
„Þetta er svo galið. Og það sem stendur upp úr af okkar hálfu í þessu máli er að það má berja barn á Íslandi ef það er ekki með íslenska kennitölu,“ segir Sonja Magnúsdóttir og kveðst ekki geta á sér heilli tekið af áhyggjum af örlögum kólumbíska drengsins unga í Hafnarfirði. Ljósmynd/Aðsend

Sonja brá þá á hið hinsta ráð sem henni kom til hugar og hafði samband við Vilhjálm Hans Vilhjálmsson lögmann sem lagt hefur fram beiðni um frestun flutnings Oscars úr landi.

„Hjarta mitt er í molum, ég er með barn í höndunum sem fékk hugrekki til að standa upp gegn ofbeldismanninum föður sínum. Oscar öðlaðist trú á því að íslensk yfirvöld hjálpuðu honum, en þau héldu bara áfram að beita hann ofbeldi. Það má sem sagt berja börn sem ekki hafa íslenska kennitölu,“ segir Sonja Magnúsdóttir að lokum.

Enginn veit hvaða örlög bíða þeirra feðga í Kólumbíu en þarlend yfirvöld hafa gefið það út að þau geti ekki tryggt Oscari hinum unga nokkra vernd.

Gegn vilja forsjáraðila

Vilhjálmur hefur ritað heimferðar- og fylgdardeild ríkislögreglustjóra erindi og krafist þess að brottvísun Oscars verði tafarlaust frestað.

„Faðir hans beitti hann miklu ofbeldi svo sem áður hefur verið upplýst. Fór svo að faðir afsalaði sér forsjá hans. Brottvísun hans nú fæli í sér að barnið væri gegn vilja forsjáraðila fært til annars lands. Barnavernd Hafnarfjarðar hefur ekki samþykkt brottflutning barnsins sem það fer með forsjá yfir,“ skrifar lögmaðurinn.

„Hér með er farið fram á að brottvísun barnsins verði tafarlaust frestað og málið endurskoðað í samræmi við fyrri bréf undirritaðs,“ klykkir Vilhjálmur út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert