Mótmælandi sem var handtekinn í morgun fyrir að fara ekki að fyrirmælum lögreglu hefur verið látinn laus úr haldi.
Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir hann hafa verið látinn laus eftir skýrslutöku.
Mótmælendur á vegum félagsins Ísland Palestína mótmæltu fyrir utan utanríkisráðuneytið í morgun.
Ásmundur kveðst ekki geta sagt til um hvort að mótmælendur hefðu atað málningu á ráðuneytið eða einhverjum öðrum rauðleitum vökva.
Hann segir að sjá þurfi til hvort einhverjar varanlegar skemmdir hafi orðið á húsnæði ráðuneytisins eftir verknað dagsins.
Í mótmælunum krafðist félagið Ísland Palestína, meðal annars, þess að Ísland bindi enda á stjórnmálasamstarf við Ísrael og beiti ríkið viðskiptaþvingunum.