Rýfur þing og boðar til kosninga

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands.
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, hyggst fallast á beiðni forsætisráðherra um að rjúfa þing. Hyggst hún tilkynna þingrof á Alþingi 17. október og verða kosningar í framhaldinu boðaðar 30. nóvember.

Þetta sagði Halla að loknum fundi með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins.

Bjarni sagði við blaðamenn er hann gekk á fundinn að hann væri mættur til að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt.

Halla og Bjarni funduðu einnig á Bessastöðum í gær þar sem hann óskaði eftir að þing yrði rofið. Í kjölfarið fundaði forseti með formönnum stjórnarandstöðu flokkanna og síðar með Svandísi Svavarsdóttur og Sigurði Inga Jóhannssyni, formönnum VG og Framsóknar.

Ríkisstjórnin situr sem starfsstjórn

„Forsætisráðherra gekk á minn fund hér á Bessastöðum í dag og baðst lausnar fyrir sig og ríkisstjórn sína. Ég hef fallist á þá lausnarbeiðni hans,“ sagði Halla í ávarpi eftir fund hennar með Bjarna.

Hún kveðst hafa óskað eftir því við fráfarandi ríkisstjórn að sitja áfram sem starfsstjórn þar til ný ríkisstjórn verður mynduð.

„Frumskylda mín sem forseta er að tryggja að í landinu sé starfhæf stjórn. Ríkisstjórn sem beðist hefur lausnar situr sem starfsstjórn til bráðabirgða. Í því felst að hún gegnir þeim störfum sem nauðsynleg eru við daglega stjórn landsins.“

Hægt að ljúka mikilvægum málum

Hún sagði þingmenn halda sínu umboði fram að kjördegi og því gætu þeir lokið mikilvægum málum sem lægju fyrir.

„Senn göngum við til kosninga. Ég vil af því tilefni beina þeirri ósk til þings og þjóðar, að við vöndum okkur í samtalinu sem fram undan er og varðar framtíð þessarar þjóðar.

Virkt lýðræði krefst skoðanaskipta og í heilbrigðu samfélagi getum við öll skipst á skoðunum með virðingu, mennsku og heiðarleika að leiðarljósi.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert