Sigmundur: Ákvörðunin kom ekki á óvart

Sigmundur Davíð og Halla Tómasdóttir forseti Íslands á fundi í …
Sigmundur Davíð og Halla Tómasdóttir forseti Íslands á fundi í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður og formaður Miðflokksins, segir það ekki hafa komið sér sérstaklega á óvart að VG hafi ákveðið að taka ekki þátt í starfsstjórninni sem mun starfa fram að kosningum.

mbl.is bar undir hann tíðindi dagsins en fyrr í dag tilkynnti Halla Tómasdóttir forseti Íslands að hún hefði samþykkt að rjúfa þing og að kosið verði 30. nóvember, eftir að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra baðst lausnar fyrir ráðuneyti sitt.

Hún fól fráfarandi stjórnarflokkum að starfa fram til kosninga í starfsstjórn undir forystu Bjarna. 

„Þetta er eins og við var að búast, úr því sem komið var,“ segir Sigmundur Davíð.

„Það var ekkert annað í stöðunni. Vinstri grænir höfðu áður gefið til kynna að þeir vildu ekki vera með í starfsstjórninni sem er svolítið sérstakt í sögulegu samhengi. Framsóknarflokkurinn hafði myndað einhvers konar bandalag með VG bæði í aðdragandanum og eftir að forsætisráðherrann boðaði þingrof. En þeir ætla að vera þarna að einhverju leyti enn um sinn.“ 

Gott að fá niðurstöðu í málið

Kom það Sigmundi á óvart að VG skuli ekki ætla að taka þátt í starfsstjórninni?

„Nei, ekki eftir ummæli formanns flokksins [Svandísar Svavarsdóttur] í fjölmiðlum fyrr í gær og í sjónvarpinu í gærkvöldi. Eftir það kom þessi ákvörðun því ekki á óvart,“ segir Sigmundur Davíð. Hann er ánægður með að fá hlutina á hreint. 

„Ég er feginn að hlutirnir séu farnir að skýrast og komin sé formleg niðurstaða. Þá er hægt að búa sig undir kosningar,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert