Maður var stunginn með hnífi í miðbæ Reykjavíkur. Kona var handtekin og var hún vistuð í fangageymslu þar til hægt verður að ræða við hana.
Ekkert kemur meira fram um málið í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun.
Alls voru 48 mál skráð í kerfi lögreglunnar á þessu tímabili, þar af sjö mál þar sem fólk var kært og eru málin í rannsókn.
Lögreglan á Hverfisgötu fór til aðstoðar í búsetuúrræði þar sem skjólstæðingur var með æsing og ógnandi hegðun. Málið var leyst með samtali og nærveru.
Tilkynnt var um þjófnað eftir að tösku var stolið frá ferðamanni á hóteli.
Einn var handtekinn en hann var eftirlýstur af öðru embætti. Hann var vistaður í fangageymslu þar til hægt verður að ræða við hann.
Óskað var eftir aðstoð lögreglu í matvöruverslun vegna þjófnaðar. Málið var afgreitt á vettvangi.
Í hverfi 200 í Kópavogi var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir. Maðurinn fannst ekki.
Lögreglan sem sinnir verkefnum í Grafarvogi, Árbæ og Mosfellsbæ aðstoðaði sjúkralið í útkalli vegna slyss inni á heimili.
Einnig fór lögreglan í eftirlit með vörslu og meðferð skotvopna. Skotvopn og nokkur önnur vopn voru haldlögð. Málið er í rannsókn.
Sjúkralið var aftur aðstoðað í útkalli. Lögreglan braut sér leið inn á heimili svo að sjúkraflutningamenn gætu veitt aðhlynningu.