„Það eru einhverjir bófar þarna úti í mikilli fýlu“

Ólafur Darri Ólafsson fékk símtal frá lögreglunni snemma í morgun.
Ólafur Darri Ólafsson fékk símtal frá lögreglunni snemma í morgun. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Brotist var inn í bíl leikmyndadeildar á tökustað þáttanna Reykjavík Fusion í miðbæ Reykjavíkur í nótt.

Birkir Blær Ingólfsson einn eigenda framleiðslufyrirtækisins ACT4 staðfestir þetta í samtali við mbl.is. Hann segir að brotist hafi verið inn í bílinn við tökustað á Vesturgötu.

„Það var brotist inn í bílinn hjá manninum sem sér um leikmuni á setti og þar var stolið mörgum símum, sem eru leikmunir – fartölvu og helling af gervikókaíni og gervipeningum,“ segir Birkir Blær.

Eftirlíking af Gucci-tösku skilin eftir

Birkir segir að hluta þýfisins hafi verið skilað. Taska sem er eftirlíking af Gucci-tösku hafi verið skilin eftir í anddyri lögreglustöðvarinnar og í henni hafi verið tveir Samsung Galaxy-símar og ein Samsung-fartölva. Þá hafi einnig verið rauður Malbaro-sígarettupakki.

„Gervikókaínið og gervipeningarnir voru ekki í töskunni sem mér skilst að sé ekki frá okkur. Væntanlega hafa þessir óprúttnu aðilar haldið að þeir væru komnir í feitt með margar milljónir af peningum og kókaíni en sitja nú eftir með sárt ennið. Það eru einhverjir bófar þarna úti í mikilli fýlu,“ segir Birkir.

Hann segir að lögreglan hafi haft samband við Ólaf Darra Ólafsson, sem fer með eitt aðalhlutverkið í þáttaröðinni, snemma í morgun og það hafi líklega verið vegna þess að í einum símanum sem var skilað hafi verið mynd af honum þar sem síminn hafi verið hans í þáttaröðinni.

Setur strik í reikninginn varðandi tökur

Birkir segir að gervipeningarnir gætu verið í umferð en þeir séu svo langt frá því að vera eins og falsaðir peningar. Hann segir að það sé allt í lagi að fólk sé meðvitað um það.

„Það mun enginn geta notað gervipeningana né gervikókaínið nema við. Við ætluðum að nota þetta til að skjóta senu í dag í þáttaröðinni og það væri því fínt ef viðkomandi aðili eða aðilar skiluðu okkur þessu. Það er kannski til marks um það að þetta góða fólk sem vinnur hjá okkur hafi náð að gera svo góða gervipeninga að það hafi raunverulega orðið innbrot út af þeim,“ segir Birkir.

Reykjavík Fusion er spennuþáttaröð. Tökur á seríunni hófust í ágúst en í henni leika Ólafur Darri Ólafsson og Hera Hilmarsdóttir aðalhlutverkin. Leikstjórar þáttanna eru þeir Samúel Bjarki Pétursson og Gunnar Páll Ólafsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert