„Í bréfi til sjálfstæðismanna í gær greindi ég samflokksfólki mínu frá því að ég væri að bregðast sjálfum mér, flokksmönnum og landsmönnum öllum með því að þykjast geta leitt stjórnina áfram þegar við næðum ekki niðurstöðu um þau mál sem skipta fólk mestu.“
Þetta segir Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.
Bjarni greindi frá því í Silfrinu á RÚV í gærkvöld að hann myndi biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Benti hann á að hann hefði sagst á sunnudaginn myndu biðjast lausnar, ef ekki næðist sátt um samstarf ríkisstjórnarinnar fram að kosningum innan flokkanna sem að henni standa.
„Það er skylda okkar að leggja grunn að enn betra Íslandi fyrir þá sem á eftir koma, en það verður ekki gert með kyrrstöðu. Stöðnun og stöðugleiki eru sitt hvor hluturinn. Vinnufriður er til einskis ef vinnan sjálf mun engum árangri skila. Ríkisstjórn verður að geta sammælst um trausta forystu í stærstu málum hvers tíma. Málamiðlanir hafa ávallt verið eðlilegur hluti þess að sitja við stjórnvölinn en fyrir því eru takmörk í hve miklum mæli má miðla málum,“ segir Bjarni ennfremur í greininni.
Bjarni segir að fram undan sé hörð og snörp kosningabarátta þar sem valkostirnir séu skýrir. Annars vegar vinstri stjórn, stóraukin útgjöld, meiri ríkisafskipti, hærri skattar og aukin skuldsetning. Hins vegar öflugur Sjálfstæðisflokkur sem getur leitt þjóðina inn í nýja tíma framfara og bættra lífskjara.