12 milljónir í snaga en bókakaup skorin niður

Hildur segir útgjöldin skjóta skökku við.
Hildur segir útgjöldin skjóta skökku við. Samsett mynd

Tæpum tólf milljónum króna var eytt í kaup og uppsetningu á sérstökum hönnunarsnögum í Álftamýrarskóla í Reykjavík.

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir útgjöldin skjóta skökku við nú þegar borgin hefur skorið niður bókakaup skólabókasafna um tíu milljónir króna.

Vakti furðu í skólanum

Það var kennari í Álftamýrarskóla sem vakti athygli borgarfulltrúans á snögunum. Hildur kallaði í framhaldinu eftir upplýsingum um kostnað vegna þeirra.

„Oft eru það litlu málin sem eru besta birtingarmyndin af bruðlinu í borginni. Kennarar eru núna og skólasamfélagið að kalla eftir auknum stuðningi inn í skólana og allt annars konar fjárstuðningi en birtist okkur í þessum snögum,“ segir Hildur í samtali við mbl.is.

„Viðkomandi vakti athygli mína á þessu vegna þess að þetta hafði vakið furðu í skólanum. Skólasamfélagið hefur verið að kalla eftir ýmsum úrbótum og fær oft þau svör að ekki séu til nægir fjármunir, þannig að það vakti undran að hægt væri að eyða slíkum fjármunum í þessa snaga.“

Hér má sjá snagana.
Hér má sjá snagana. Ljósmynd/Aðsend

Sláandi tölur

Borgin ákvað á síðasta ári að skera niður bókakaup skólabókasafna um tíu milljónir króna.

Morgunblaðið og mbl.is hafa fjallað ítarlega um vanda íslenska skólakerfisins síðustu mánuði. Meðal annars hefur verið greint frá því að lestraráhugi barna hafi hrunið frá aldamótum og að stór hluti nemenda á yngsta stigi nái ekki sett­um viðmiðum þegar kem­ur að lestr­ar­færni.

„Við erum núna í gríðarlega mikilvægri umræðu um stöðu skólakerfisins og þann vanda sem blasir við. Við erum að horfa á mjög sláandi tölur um læsisvanda barna og þá skýtur það verulega skökku við þegar ákveðið er samhliða að skera niður til bókakaupa á skólabókasöfnum,“ segir Hildur.

Álftamýrarskóli.
Álftamýrarskóli. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Snagarnir ræddir í „Borginni“

Hildur vakti athygli á snagakaupunum í nýjum hlaðvarpsþætti sem ber heitið Borgin. Þar ræða þau Friðjón Friðjónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, um borgarmálin, eins og heiti hlaðvarpsins gefur til kynna.

Það er hægt að fleygja 12 milljónum í snaga, ekki nokkurt mál. Hönnunarsnagar á 12 milljónirEn bækur fyrir börn sem glíma við læsisvanda, það hentar einhvern veginn ekki,“ sagði Hildur þar meðal annars.

Hún sagði gagnrýnina alls ekki snúast um hönnun snaganna heldur einfaldlega að þetta sé ekki það sem skólasamfélagið þurfti á að halda „þegar skorið er við nögl á ýmsum furðulegum stöðum“.

„Svo er auðvitað annað. Meirihlutinn segist fara í hundrað hagræðingaraðgerðir, en engin þeirra hreyfir nálina í rekstrinum, þetta er allt eitthvað lítið eitt, hér og þar, þegar það þarf auðvitað að ráðast á þetta stjórnkerfi og þetta millistjórnendalag, þennan gríðarlega starfsmannafjölda og þetta ofvaxna kerfi,“ sagði Hildur jafnframt.

„Þetta er auðvitað bara algjörlega augljóst mál, það bara þorir enginn að segja það og það þorir enginn að taka á því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert