„Að sjálfsögðu viljum við klára þetta“

Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður og ráðherra Framsóknar.
Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður og ráðherra Framsóknar. mbl.is/Eyþór

„Framsóknarflokkurinn er mjög ábyrgur flokkur og það kom ekkert annað til greina hjá okkur. Við höfum starfað saman í sjö ár og að sjálfsögðu viljum við klára þetta,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, er hún var spurð út í ríkisstjórnarsamstarfið fyrir ríkisstjórnarfund sem hófst klukkan 16.

Líklega er um síðasta ríkisstjórnarfund Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna.

„Það er forseti sem biður okkur að taka þátt í þessu. Þannig að ég segi bara fyrir mitt leyti; ég er mjög stolt af því sem við höfum verið að gera og vildi klára það.“

Hlakkar til kosninga

Lilja sagði það eiga eftir að koma í ljós hvort boðað verður til ríkisráðsfundar.

„Við erum að vinna með svolítið óvenjulegar aðstæður akkúrat núna.“ 

Spurð hvort hún búist við erfiðum fundi svaraði Lilja neitandi. 

Verða Framsókn í einhverskonar milligöngu á milli hinna flokkanna?

„Ég bara veit það ekki,“ sagði Lilja kímin. 

„Ef ég á að segja ykkur alveg eins og er: Ég er bara á leiðinni í kosningar og ég hlakka til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert