Framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ hefur boðað til upplýsingafundar sem hefst klukkan 13.30 síðar í dag. Þar verður farið yfir breytt fyrirkomulag í sambandi við aðgengi að Grindavík.
Þetta kemur fram í tilkynningu nefndarinnar.
Á fundinum verður einnig upplýst um framkvæmdir sem hafa átt sér stað í bænum, þær öryggisráðstafanir sem búið er að ráðast í, þær lagalegu heimildir sem liggja að baki opnuninni og áætlun um breytt fyrirkomulag í sambandi við lokunarpóstana.
Í síðasta mánuði var greint frá því að vinna stæði yfir við að girða af og merkja hættuleg svæði innan Grindavíkur.
Þótti sú vinna nauðsynleg til að koma í veg fyrir möguleg slys eða tjón af völdum þeirrar hættu sem er til staðar.