Einn í haldi vegna stunguárásar í Grafarvogi

Grafarvogur.
Grafarvogur. mbl.is

Karlmaður á þrítugsaldri situr í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa stungið karlmann á fertugsaldri í Grafarvogi fyrir viku síðan.

Annar karlmaður var handtekinn vegna árásarinnar en hann var látinn laus að loknum yfirheyrslum, að sögn Eiríks Valbergs, fulltrúa í miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Hann segir manninn hafa verið úrskurðaðan í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna og rennur það út á morgun. Ekki hefur verið ákveðið hvort óskað verður eftir áframhaldandi varðhaldi, að sögn Eiríks. 

Með góða mynd af því sem gerðist

„Við erum með nokkuð góða mynd af því sem þarna gerðist en erum ekki tilbúin að fara út í málavexti,“ segir Eiríkur, spurður út í tildrög árásarinnar.

Samkvæmt heimildum mbl.is var árásin gerð í Foldahverfi.

Fram kom í tilkynningu lögreglunnar í síðustu viku að karlmaðurinn sem varð fyrir árásinni hefði hlotið lífshættulega stunguáverka á líkama. Hann var flutt­ur á bráðamót­töku þar sem gert var að sár­um hans. Hann hefur nú verið útskrifaður af sjúkrahúsi, að sögn Eiríks. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert