Enginn hefur áður neitað að sitja í starfsstjórn

Bjarni Benediktsson og Halla Tómasdóttir á Bessastöðum.
Bjarni Benediktsson og Halla Tómasdóttir á Bessastöðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra gekk í gær á fund Höllu Tómasdóttur forseta Íslands og baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt.

Halla féllst á lausnarbeiðnina en óskaði eftir því að ríkisstjórnin sæti áfram sem starfsstjórn þar til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð. Er þetta í samræmi við fasta venju sem hefur verið hér á landi við svona aðstæður.

Svandís Svavarsdóttir formaður VG lýsti því hins vegar yfir í gær að þingflokkur VG myndi ekki taka þátt í starfsstjórninni og ráðherrar flokksins yrðu frá og með deginum í dag almennir þingmenn.

Örðugt að svara því

Um starfsstjórnir er fjallað í bók Bjargar Thorarensen hæstaréttardómara, Stjórnskipunarréttur Undirstöður og handhafar ríkisvalds, sem kom síðast út árið 2021.

Þar segir að eftir að forseti hafi fallist á lausnarbeiðni forsætisráðherra verði skiljanlega að tryggja áfram stjórn yfir landinu þar til ný ríkisstjórn hafi verið mynduð. Slík stjórn sé kölluð starfsstjórn en með því sé undirstrikað að hún sitji aðeins til bráðabirgða og gegni þeim störfum sem séu nauðsynleg við daglega stjórn landsins.

Björg segir að talið hafi verið að forsætisráðherra væri skylt að verða við þeim tilmælum forseta að sitja áfram um sinn í starfsstjórn. Óljósara sé hversu lengi slíkri stjórn sé skylt að sitja og hversu mikið ráðrúm þurfi að fela nýjum aðila til að ljúka stjórnarmyndun.

Örðugt sé að svara því hvernig forseti brygðist við ef ríkisstjórn neitaði að sitja áfram, einkum þegar stjórnarmyndun hefði dregist mjög á langinn og hvort hann geti þá neitað um lausn. Tæplega gæti ríkisstjórn starfað undir slíkri þvingun og gæti ágreiningur orðið svo mikill að forseti veldi þann kost að skipa utanþingsstjórn til bráðabirgða.

Þekkir engin dæmi

Ekki er fjallað um það sérstaklega í bók Bjargar hvernig bregðast eigi við ef einn stjórnarflokkur neitar að sitja í starfsstjórn undir stjórn fráfarandi forsætisráðherra og þannig hafi starfsstjórnin ekki formlegan meirihluta á þingi.

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði, sagðist í samtali við Morgunblaðið ekki þekkja nein dæmi um það í lýðveldissögunni að flokkar eða einstakir ráðherrar hefðu neitað því að sitja í starfsstjórnum.

Óljóst var í gær hvernig starfsstjórnin mun haga málum í ljósi þessa en Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, sem sátu í ríkisstjórn með VG, eru samtals með 30 þingmenn og skortir því tvo til að hafa meirihluta á þinginu.

Lesa má fréttina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert