Evrópuráðið vill efla íslensk sveitarfélög

Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins vill aukið sjálfstæði og fjámagn til íslenskra sveitarfélaga …
Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins vill aukið sjálfstæði og fjámagn til íslenskra sveitarfélaga og vill tryggja höfuðborginni sérstöðu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins mælist til þess í áliti sem það sendi frá sér í dag að íslensk stjórnvöld lögfesti staðbundnar sjálfsstjórnarreglur fyrir sveitarfélög landsins.

Bendir þingið, máli sínu til stuðnings, á að Ísland sé leiðandi á heimsvísu hvað áhrærir hátt hlutfall kvenna í sveitarstjórnum og þátttöku þeirra í atkvæðagreiðslum auk þess sem það lauk lofsorði á sjálfstæði sveitarstjórnanna í eigin fjármálum.

Enn fremur bendir þingið á að íslenskum stjórnvöldum hafi áður verið send efnislega samhljóða áskorun, með það fyrir augum að tryggja skýra skiptingu ábyrgðar milli ríkis og sveitarfélaga, án þess að hafa brugðist við.

Fjárveitingar til sveitarfélaga rýrar

Er álit sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins hluti af niðurstöðu þriðju eftirlitsskýrslu þess um Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga sem Ísland fullgilti árið 1991 breytni einstakra ríkja til samræmis við sáttmálann og var skýrslan kynnt á 47. þingi sveitarstjórnarþingsins.

Fögnuðu framsögumenn kynningarinnar, þau Matthias Gysin frá Sviss og hin austurríska Gudrun Mosler-Törnström, hækkun ríkisstyrkja íslenskum sveitarfélögum til handa og vöktu athygli á fyrirhuguðum endurbótum á samráðsferli sveitarstjórnarþingsins um opinber fjármál og jöfnunarkerfi.

Gagnrýnivert töldu þau þó að fjárveitingar til sveitarfélaga hrykkju ekki til að þeim væri kleift að sinna verkefnum sínum á áhrifaríkan hátt, samstarf sveitarfélaga á milli væri einsleitt og fábreytt auk þess sem Reykjavík væri ekki kleift að sinna sérstökum skyldum sínum sem höfuðborg er hún væri borin saman við önnur sveitarfélög.

Leggur sveitarstjórnarþingið til að íslensk stjórnvöld skilgreini verkaskiptingu sveitarfélaga gerlegar, lögfesti sáttmálann um sjálfsstjórn þeirra, tryggi sveitarfélögum þá fjárveitingu sem fullnægjandi teljist, nútímavæði jöfnunarkerfi þeirra, veiti Reykjavík sérstöðu sem höfuðborg og efli samráð um fjárhagsmálefni sveitarfélaga.

Tilkynning Evrópuráðsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert