Fjölga atvinnurýmum og íbúðum á Garðatorgi

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, segir uppbygginguna stórhuga í samhengi torgsins.
Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, segir uppbygginguna stórhuga í samhengi torgsins. mbl.is/Arnþór

Til stendur að auka atvinnurými og fjölga íbúðum á Garðatorgi til muna og vonast er til að framkvæmdir geti hafist næsta sumar eða haust. Kostnaðarmat liggur þó ekki fyrir og enn á eftir að semja um útfærsluna við eigendur Garðatorgs 1.

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, segir ásókn í verslun og þjónustu á Garðatorgi fara ört vaxandi og þar með tækifæri falin í því að ganga í uppbyggingu á svæðinu.

Kynning á málefnum Garðatorgs og fyrirhugaðri uppbyggingu á torginu fór fram á fundi bæjarráðs Garðabæjar í gær.

Húsnæðið ekki í eigu bæjarfélagsins

„Við erum að leggja í þá vegferð að skoða breytingar á skipulagi þannig að húsnæðið að Garðatorgi 1 taki breytingum, þannig við aukum atvinnurými og eftir atvikum fjölgum íbúðum á svæðinu eitthvað líka.“

Hann segir þau sjá fyrir sér stækkun á húsnæðinu við Garðatorg 1, en að eftir eigi að útfæra það.

Ráðhús Garðabæjar við Garðatorg.
Ráðhús Garðabæjar við Garðatorg. mbl.is/Ómar Óskarsson

Húsnæðið er þó ekki í eigu Garðabæjar heldur fasteignafélagsins Heimar. Almar segir að viðhaft verði eðlilegt samráð við hagsmunaaðila og íbúa á svæðinu.

„Í einhverjum skilningi erum við að loka hringnum. Hér hafa risið atvinnuhúsnæði og íbúðir í bland. Flest þessara húsa eru með atvinnu á neðstu hæðum og íbúðir uppi og við erum í raun að huga að því að klára hringinn í því. Þannig að það verði fleiri íbúðir á svæðinu, en um leið að húsið verði stækkað með tilliti til atvinnuhúsnæðis líka.“

Stefna að framkvæmd næsta sumar eða vor

Spurður út í tímaáætlun fyrirhugaðra framkvæmda segir Almar að veturinn muni að mestu fara í kynningarvinnu framkvæmdanna og formgera skipulagstillöguna, afgreiða hana eftir tillögum og breytingum. Fari allt að óskum verði fyrirhuguð uppbygging komin á framkvæmdarstig næsta sumar eða haust.

„Við erum mjög upptekin af því að koma málinu hratt og vel áfram, en um leið í eðlilegu samráði við íbúa.“

Hann segir tækifæri einnig falin í því að efla samfélagsviðburði á torginu, til að mynda menningarlega listaviðburði og útimarkaði.

Útimarkaður á Garðatorgi.
Útimarkaður á Garðatorgi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stórtækar breytingar en ekki umbylting

Hann segir kostnaðarmat ekki liggja fyrir og tekur sem dæmi að semja þurfi við eigendur Garðatorgs 1 áður en hægt verði að meta kostnað.

„Við erum þó bjartsýn og deilum áhuga á svæðinu, báðir aðilar sjá tækifærin í frekari uppbyggingu.“

Spurður segir hann fyrirhugaða uppbyggingu stórtæka í samhengi við umfang torgsins, en að í fermetrum talið sé ekki verið að umbylta því sem slíku.

„Þetta er nauðsynleg viðbót sem styður vel við það sem þegar hefur verið gert hérna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert