Hún er 55 ára gömul þriggja barna móðir og á sjö barnabörn sem hún hittir reglulega, til dæmis í sundlaugum bæjarins. Venjulegur dagur í lífi hennar er þó töluvert frábrugðinn degi hinnar dæmigerðu móður og ömmu á sextugsaldri á Íslandi. Hún er heimilislaus og hefur verið það síðustu fjögur ár.
„Þetta bara tekur einhvern veginn frá manni alla orkuna. Þessi rútína að kastast út í hvaða veðri sem er. Koma hingað og kastast til baka og maður hefur einhvern veginn ekki tíma í svo mikið annað. Að þurfa að bera aleiguna á bakinu – ég er virkilega þreytt á því. Þetta er bara full vinna.“
Blaðamaður settist niður með henni í Skjólinu, opnu húsi fyrir heimilislausar konur á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar. Hún vildi ekki að nafn sitt kæmi fram í viðtalinu.
Konan ólst upp í Breiðholtinu en fluttist svo austur fyrir fjall, þar sem faðir hennar rak svínabú og síðar annað í Kjósinni.
„Þannig er ég alin upp í sveit og með hestum, ég hafði alltaf gaman af hestum,“ segir hún. Hún segir foreldra sína dagdrykkjufólk. „Þau eru svo rosalega veik að ég meika það ekki. Krakkarnir mínir fara í mat til þeirra en ég hitti þau ef ég fer í jarðarför og tek þá utan um þau en ég vel að umgangast þau ekki.“
Konan eignaðist sitt fyrsta barn sjálf barn að aldri, bjó í áratug með írönskum manni í Svíþjóð og lýsir því sambandi sem ógeðslegu. Hann hafi verið framlenging af móður hennar og ekki borið neina virðingu fyrir henni. Þau eiga tvær stelpur sem hann náði til Írans en sem betur fer ekki í langan tíma.
Hún var send frá Svíþjóð til Íslands vegna veikinda sinna og tók saman við annan mann, fíkniefnasala sem var miklu yngri en hún. Voru þau saman í þrjú ár en hún lýsir honum sem þolinmóðum og góðum við krakkana.
„Hann dó í fyrra mjög óvænt, mér þótti mjög vænt um hann,“ segir hún og heldur áfram: „Ég hef verið dugleg að ná mér í handónýta menn sem ég held að ég geti lagað.“
Spurð hvers vegna svo sé segir hún það líklega vera svo að hún þurfi ekki að horfast í augu við sjálfa sig. „Það er gott að geta bent á hann og sagt þú ert ómögulegur dópisti,“ segir hún og hlær.
Á árunum 2008 til 2015 starfaði hún á meðferðarheimili á vegum Samhjálpar og á kaffistofu félagasamtakanna fyrir heimilislausa. „Á þeim tíma hefði ég aldrei séð þetta fyrir.“
Um aðdraganda þess að hún lenti á götunni segist hún hafa fengið íbúð sem enginn hafði búið í áður. Vatn hafi lekið á gólfið og á íbúðinni verið gallar sem ollu því að hún yfirgaf hana.
„Ég gat ekkert staðið í þessu. Ég var bara í einhverju sturlunarástandi vegna veikinda. Ég held að fólk hafi a.m.k. upplifað mig þannig.“
Hún skildi eigur sínar eftir, fór á hótel og svo í meðferð. Að lokinni meðferðinni fór hún á áfangaheimili. Segist hún ekki hafa verið í vandræðum með áfengi eða önnur vímuefni.
„Nei, ég er spilafíkill. Það var mjög gott þegar covid kom, því þá neyddist ég til að horfast í augu við það og viðurkenna fyrir öllum.
Ég neyddist líka til að fara í GA [Samtök fólks sem deila með sér reynslu, styrk og von um að geta leyst sameiginlegt vandamál sitt og hjálpa öðrum að ná bata vegna spilafíknar], sem ég gerði.“
Segist hún á þeim tíma einnig hafa verið að taka of mikið af róandi lyfjum og því hafi verið gott að fara í meðferð og kúpla sig aðeins niður. Hún segist alls ekki hafa búist við því að hún yrði þetta lengi í Konukoti.
„Ég hef farið inn á áfangaheimili á þessum fjórum árum. Það kviknaði í einu þeirra og við héldum dyrunum opnum og hjálpuðum fólki út,“ segir hún og andvarpar.
Hún fór í ónýtt húsnæði sem var úthlutað í Kópavogi. „Það var skrautlegt. Mikil neysla. Bara svakalegt. Síðan var húsið rifið og enginn fékk að sækja dótið sitt eða neitt. Það varð allt eftir.
Ég sá alltaf fyrir mér að ég myndi fara í eitthvað annað úrræði þangað til ég allavega fengi... en svo er þetta bara búið að... og ég kem bara alltaf aftur.“
Hún er ekki í harðri neyslu en segist alveg drekka bjór. „Það eru alveg heimilislausir einstaklingar sem ekki eru í neyslu. Allir sem koma frá Konukoti eru stimplaðir sprautufíklar og fá til dæmis ekki þjónustu á spítölum.“ Segir hún það mikinn misskilning.
„Það er fólk sem lendir í Konukoti sem á einhvern veginn enga atburðarás í að lenda þarna. Kannski ung stelpa sem býr hjá foreldrum sem drekka og hún í skóla. Það verður allt vitlaust og þá neyðist hún til að vera þarna af því að hún er 18 ára.
Það var kona sem hafði verið gift manni í 40 ár. Hún var jafn gömul mömmu minni, sjötíu og eitthvað ára. Maðurinn hennar dó og þá kom í ljós að hann átti son sem enginn vissi af. Sonurinn erfði allt og henti gömlu konunni út. Hún lenti í Konukoti og vissi ekkert hvar hún var,“ segir hún.
Þá segir hún mikið um að konur sem hafi búið erlendis komi heim og detti þannig einhvern veginn út úr kerfinu og endi í Konukoti.
Þjófnaður, ofbeldi og nauðganir. Þetta er veruleiki sem heimilislaus kona á sextugsaldri býr við í Reykjavík.
„Ég er búin að lenda í slagsmálum og alls konar „shit-i“.“ Hún segir það verulega taka á. „Ég er með upptökur í símanum mínum – marga klukkutíma af alls konar „shit-i“ en ég meika ekki að horfa eða hlusta á það. Ég fæ alveg hroll en samt er ég einhvern veginn með þetta. Það er enginn sem getur skilið þetta, held ég.“
Hún segir hnífaárásum hafa fjölgað og að fólk gangi með hnífa. Hún segist sjálf ekki ganga með hníf í dag en að hún hafi gert það fyrst.
„Mér leist ekki á að vera að mæta kannski fimm Pólverjum úti í garði sem voru ágengir. Maður sá alveg að einhver var kannski dauð í garðinum og þeir voru bara... jájá... það er alls konar „shit“, uhum.“
Hún segir allt hverfa. Skáparnir í Konukoti séu ýmist brotnir upp eða opnaðir með stolnum lyklum frá starfsfólki.
„Hér (í Skjólinu) er enginn sem reynir að brjóta skápana, hér eru myndavélar og fylgst með þessu. Það er hugsað miklu betur um hlutina hér og þær gætu alveg tekið Skjólið til fyrirmyndar þegar kemur að vinnubrögðum þarna niður frá.“
Lætur hún vel að Skjólinu og starfinu þar. „Ég reyni að koma sem oftast. Hér fær maður almennilegan mat en það er oft sem ekki er góður matur niður frá en það er vont að það er lokað hér allar helgar og eins hefur komið fyrir að það sé ekki hægt að opna hér ef það eru veikindi.“
Hún segist vegna stöðu sinnar virkilega fá að finna fyrir því að hún sé minna virði en aðrir. Hún geti ekki hringt á leigubíl, flest hótel eða lögreglu því í kerfunum sé hún óstaðsett í hús.
„Einn kunningi minn er með hostel og ég get fengið herbergi þar af og til. Ég leyfi mér að fara á hótel þegar ég þarf að kúpla mig út. Ég get ekki... ég heyri stundum öskrin þegar ég loka augunum.“
Segir hún heimilislausa í Reykjavík alltaf hafa aðgengi að mat. Það sé þó eitthvað en æði misjafnt sé hvernig þeim sé tekið á veitingastöðum.
„Okkur er oft vísað út þó að það sé ekkert sem bendir til að við séum heimilislausar en fólk bara veit það. Sumir eru mjög dónalegir. Setningar eins og „við viljum ekki ykkar líka hingað inn“ hafa heyrst.“ Aðrir staðir eru þeim hins vegar hliðhollir segir hún og að þau geti beðið um súpu á þeim sumum.
Hún segist bæði lesa mikið og teikna en það sé óþolandi að allir litir hverfi. „Þær taka yfirleitt allt úr skápunum og róta hratt í gegnum og henda svo afganginum út í tunnu eða næsta runna.“
Spurð hvort bjartari hliðar séu á lífi heimilislausrar konu í Reykjavík segir hún það ógleymanlegt að hafa kynnst sumum einstaklingunum
„Maður finnur til hlýju með þeim og ég hefði aldrei trúað að ég myndi hafa svona mikla samkennd með fólki sem er jafn ólíkt mér og það er.“
Inni á milli segist hún finna fyrir voninni. Segist vera nýbúin að fá aðstoð með skuld hjá Félagsbústöðum og vera með mjög góðan ráðgjafa sem sé svo sannarlega að vinna vinnuna sína.
„Ég held að það sé von á að ég fái íbúð. Það er tekið tillit til þess að ég eigi mikið af barnabörnum sem myndu koma og gista hjá mér í framtíðinni.“
Á móti hafi hún séð konur sem farið hafi úr Konukoti en komi svo aftur. „Þetta er svona eins og þegar menn eru mikið í fangelsum. Ákveðin rútína, það er ferlega skrítið að sjá þetta. Þær jafnvel komast í úrræði á milli eða inn á heimili og eyðileggja það bara.
Þetta eru svo ágeng og erfið samskipti að það meika ekki allir tómleikann. Þetta er bara stöðugt áreiti og mikil viðbrigði að fara inn á hljóðlátt heimili.“
Segist hún þó telja að það verði öðruvísi fyrir sig. „Ég er á þannig aldri og svoleiðis. Ég myndi svo líka alltaf koma hingað (í Skjólið) á meðan ég er að koma mér fyrir og festa rætur á nýjum stað.“