Greip til dúkahnífs til að verjast einelti

Þórdís segir stjórnendur Helgafellsskóla algjörlega hafa brugðist syni sínum.
Þórdís segir stjórnendur Helgafellsskóla algjörlega hafa brugðist syni sínum. mbl.is/Samsett mynd

Þórdís Lilja Einarsdóttir sá ekki annan kost stöðunni en að taka son sinn úr Helgafellsskóla síðasta vor eftir að hann hafði orðið fyrir alvarlegu einelti í langan tíma, af hálfu bekkjarfélaga.

Hún segir skólastjórnendur ekki hafa viljað skrá eineltið þegar hún tilkynnti um það, en eineltishnappur á vef skólans var óvirkur um tíma. Ekki hafi verið tekið á málinu þrátt fyrir ítrekaðar óskir hennar, og gerendur hafi fengið að halda sínu striki án nokkurra afleiðinga, að því er virtist.

Ástandið var orðið þannig að sonur hennar lifði í stöðugum ótta við að ráðist yrði á hann og var sífellt á varðbergi. Þá var hann farinn að grípa til ofbeldis og ógnandi hegðunar til að verja sig. Þórdís segir það vissulega óásættanlegt, en vanlíðan og kvíði sonar hennar brjótist gjarnan út með þeim hætti. Hún gat ekki gert honum það að vera áfram í Helgafellsskóla, enda var hann þar stöðugt í kvíðavaldandi aðstæðum sem ekkert var gert til að bæta úr, að hennar mati.

Átti erfitt uppdráttar fyrstu árin

Þórdís fékk leyfi sonar síns til að segja hans sögu. Hann er nú í 8. bekk, en byrjaði í Helgafellsskóla í 6. bekk og hafði þá verið í tveimur öðrum grunnskólum. Hann átti erfitt uppdráttar á fyrstu árum skólagöngunnar og greindist ungur með bæði áfallastreitu- og kvíðaröskun eftir að hafa orðið fyrir ítrekuðu ofbeldi af hálfu einstaklings sem hann var náinn.

Í 4. og 5. bekk fór hann hins vegar að spjara sig betur, fékk gott utanumhald og náði betri tökum á náminu. Áður en hann byrjaði í Helgafellsskóla ræddi Þórdís við skólastjóra skólans og gerði grein fyrir þeim áföllum sem drengurinn hafði orðið fyrir og hvernig skólagangan hafði verið fram að þessu. Hún segist hafa verið fullvissuð um að vel yrði tekið utan um drenginn og að hann væri svo sannarlega á réttum stað. Annað kom þó á daginn.

Ítrekuð gagnrýni á skólastjórnendur

Helgafellsskóli var töluvert í fréttum fyrr í haust, en for­eldr­ar hafa meðal ann­ars gagn­rýnt aðgerðarleysi í einelt­is- og of­beld­is­mál­um af hálfu skólastjórnenda. Meðal annars var greint frá máli stúlku sem var sögð hafa mátt þola al­var­legt of­beldi af hálfu sam­nem­anda án þess að skól­inn hefði gripið al­menni­lega inn í og tóku for­eldr­ar henn­ar hana að lok­um úr skól­an­um.

Þá var rætt við móður sem tók þrjá drengi sína úr skól­an­um, en hún sagði þá bæði hafa orðið fyr­ir einelti af hálfu sam­nem­anda og of­beldi af hálfu kenn­ara. Einnig að skól­inn hefði brugðist með því að af­henda einn drengj­anna ein­stak­lingi sem mátti alls ekki sækja hann. Þá hef­ur blaðamaður upp­lýs­ing­ar um fleiri mál þar sem for­eldr­ar hafa tekið börn sín úr skól­an­um vegna mik­ill­ar óánægju með stjórn­end­ur. 

Greindi frá ítrekuðu ofbeldi

Líkt og áður sagði varð strax ljóst við upphaf skólagöngu drengsins í Ártúnsskóla að honum leið ekki vel í skólanum og átti erfitt uppdráttar. Þórdís segir þá hafa verið augljóst að hann væri bæði með ADHD og mótþróaþrjóskuröskun, þó þær greiningar hafi ekki komið fyrr en síðar. Fyrir vikið hafi ekki verið tekið tillit til hans sérþarfa. Hann hafi beitt ofbeldi og kýlt frá sér af minnsta tilefni.“

Það hafi hins vegar komið fram góð útskýring á hegðun hans nokkru síðar þegar hann fór að segja frá því að fullorðinn einstaklingur sem hann átti að geta treyst beitti hann ítrekað ofbeldi. Þórdís greindi skólanum frá þessu í þeirri von um að komið yrði fram við drenginn af meiri nærgætni en áður.

Kennari hótaði að flengja hann

Það varð þó ekki raunin. Hún segir einn kennara drengsins meðal annars hafa gagnrýnt hann og í raun gert lítið úr honum í hans áheyrn. Kennarinn hafi verið að segja Þórdísi að sonur hennar gæti ekki setið kyrr, hann gæti ekki lært og hlýddi engu. Þórdís segir að hún hafi ekki vitað hvað hún átti að gera annað en að ganga í burt með drenginn, sem hafði fengið þessa romsu yfir sig. Skömmu síðar hótaði annar kennari að flengja drenginn fyrir framan bekkinn, vitandi að hann hefði orðið fyrir ofbeldi af hálfu einstaklings sem hann treysti.

„Þá flúði hann hágrátandi úr stofunni og faldi sig, en þetta frétti ég ekki fyrr en hann kom í frístund. Þá sagði kennari í frístund mér frá þessu. Ég fékk enga afsökunarbeiðni,“ segir Þórdís.

Á næsta fundi í skólanum segir hún kennarann hafa viðurkennt að það hafi ekki verið rétt að hóta að flengja barnið, en hann væri hins vegar alveg ómögulegur og að hún réði ekkert við hann.

Svo þegar Þórdís fékk upplýsingar um að vel gengi þá kom í ljós að drengurinn var undir borði að krota á gólfið eða í bækurnar sínar. Hann var hins vegar ekki að trufla og þá var talað um að allt gengi vel.

Fullvissuð um að vel yrði tekið á móti honum

Þegar drengurinn var í 4. bekk flutti fjölskyldan og hann fór í Austurbæjarskóla þar sem Þórdís segir hann strax hafa byrjað að blómstra.

„Á nokkrum mánuðum í Austurbæjarskóla þá náði hann upp öllu námsefni og hann hætti að beita ofbeldi. Hann beitir ekki ofbeldi í dag.“

Tveimur árum síðar breyttust svo aðstæður og ákveðið var að flytja í Mosfellsbæ þar sem fjölskylda Þórdísar býr og fengu þau íbúð í Helgafellshverfinu.

Það þótti því eðlilegast að sonurinn færi í Helgafellsskóla. Þórdís átti því samtal við skólastjórann áður en drengurinn kom inn í skólann og gerði grein fyrir stöðunni, til að tryggja að vel yrði tekið á móti honum og að hann fengi þann stuðning sem hann þyrfti.

„Ég talaði við skólastjórann til að fara yfir forsöguna hans og vera viss um að hann fengi góða aðstoð og að hann væri að fara inn í gott umhverfi. Það hafði verið unnið svo mikið með hann í Austurbæjarskóla og ég vildi alls ekki að hann myndi detta í niðurbrot aftur.“

Þórdís segir skólastjórann hafa fullvissað hana um að það yrði haldið vel utan um son hennar, þetta væri svo frábær skóli þar sem ekkert einelti fengi að þrífast. Hann væri í góðum höndum hjá þeim. 

Var kýldur og hrint

Fljótlega eftir að hann byrjaði í skólanum fór hins vegar að bera á stríðni sem þróaðist út í einelti. Þórdís segir krakkana hafa hrint honum og svo hafi hann verið kýldur. „Það fyrsta sem hann gerir þá er að taka upp gamlar venjur og kýla á móti, en þá er hann skammaður.“ Það kom því fljótt mikill afturkippur í þann árangur sem hafði náðst með drenginn.

Þórdís segir kennarana hans á þessum tíma ekkert hafa ráðið við bekkinn. „Þegar ég fór svo að láta heyra í mér þá hættu þær bara að svara mér. Ég fékk aldrei að vita neitt og ef eitthvað var um að vera í skólanum þar sem foreldrarnir mættu, þá forðuðust þær mig.“

Þórdís segist alls ekki vera sú manneskja sem sé öskrandi og gargandi og það þurfi mikið til að hún láti heyra í sér.

„Ég var því mjög feginn þegar hann fékk svo nýja kennara. Þær voru yndislegar og reyndu mikið að hjálpa honum.“

Fékk eineltið ekki skráð

Hún segir fundi reglulega hafa verið haldna vegna drengsins með starfsfólki skólans og fagaðilum frá bænum. Mjög góðar hugmyndir og ráð hafi verið gefin á þessum fundum. Sett hafi verið fram áætlun um hvernig væri hægt að koma til móts við son hennar og hvað væri hægt að gera svo honum liði betur. Meðal annars hafi verið ákveðið að stuðningsfulltrúi ætti að taka á móti honum alla morgna því hann var hræddur við að mæta í skólann.

„En ef stuðningsfulltúrinn var veikur þá vorum við ekki látin vita. Hann mætti í skólann og enginn var til að taka á móti honum, þá varð hann hræddur og fór heim. Svo var stuðningsfulltrúinn ráðinn í stöðu kennara en það tók enginn við af honum til að hjálpa syni mínum,“ segir Þórdís.

„Það var öllu fögru lofað, en þegar urðu breytingar fengum við ekki að vita neitt. Það var skellur fyrir hann, hann upplifði að fullorðna fólkið gæfi honum loforð sem það stæði ekki við, þannig að hann þurfti að glíma við kvíðann einn.“

Hún segir gerendur eineltisins hafa fengið að vaða uppi án þess að nokkuð væri að gert. Aldrei hafi verið tekið á vandanum.

Henni var bent á að tilkynna einelti með eineltishnappi á heimasíðu skólans en hann hafði þá verið fjarlægður tímabundið. Hún tilkynnti því skólastjóra ítrekað um eineltið í staðinn, en segir það aldrei hafa verið skráð. Kennari spurði hana út í málið í vor því hann gat ekki fundið upplýsingar um að eineltið hefði verið tilkynnt.

Þórdís vill einmitt taka fram að kennarar, deildarstjóri og aðrir starfsmenn skólans hafi reynst syni hennar vel.

„Hann er alltaf vandamálið“

Eftir síðasta jólafrí ágerðist áreitið. Þórdís segir að setið hafi verið fyrir drengnum og vini hans á leið heim úr skólanum, þeir brókaðir og fleira. Eitt skiptið flúði vinurinn heim en Þórdís segir son sinn hafa flúið inn í smíðastofu í skólanum þar sem hann fann dúkahníf sem hann ætlaði að nota til að verja sig ef ráðist yrði á hann.

„Það er auðvitað rosalega alvarlegt að hann vopni sig með hníf, en það gleymdist alveg að horfa á aðstæðurnar. Að honum finnist hann virkilega þurfa að grípa til vopns til þess að vera öruggur. Ég gerði honum alveg fyllilega grein fyrir því að það væri ekki í lagi að grípa til vopna, alveg sama hvað.“

Hún segir hafa gleymst að huga að rót vandans, af hverju drengnum leið svona illa. Það lá fyrir að hann glímdi við kvíða sem ágerðist svo í erfiðum aðstæðum.

„Það er alltaf þetta, hann er alltaf vandamálið. Hann hagar sér illa í tímum, hann verður kvíðinn og stressaður og nær ekki að einbeita sér. Hann getur ekki lært því sá sem ætlar að berja hann eftir fimm mínútur situr við næsta borð. Hann átti erfitt með að fara út að leika sér stóran hluta af sumrinu af því þessi strákur býr í blokkinni okkar.“

Aftur farinn að blómstra á ný

Eftir að hafa ítrekað reynt að ræða við skólastjóra til að knýja fram einhverjar aðgerðir í eineltismálum, segist hún einfaldlega hafa gefist upp. Hún segir kornið sem fyllti mælinn hafa verið samtal við skólastjóra þar sem ýjað var að því að eineltið væri ekki raunverulegt. „Þá varð ég ógeðslega reið og ég gæti hafa skellt á hana.“

Þórdís ákvað því í vor að sonur hennar færi ekki aftur í Helgafellsskóla og hann var í mánuð utan skóla. 

Í kjölfarið sótti hún um skólavist í öðrum skólum fyrir hann, í Mosfellsbæ og víðar, en var neitað meðal annars á þeim forsendum að skólarnir væru ekki hverfisskólarnir hans. Þegar skólarnir byrjuðu í haust var hann ekki enn komin með skólavist, en þegar hún hafði samband við bæjaryfirvöld fékk hún góða aðstoð.

„Svo frétti skólastjórinn Lágafellsskóla af stöðunni. Henni leist ekkert á þetta og bauð honum að koma og þau eru með mjög gott úrræði fyrir hann þar sem mér líst vel á. Ef þetta stenst allt þá verður mjög vel haldið utan um hann.“

Þórdís vonar að nú sé þrautargöngu sonarins innan skólakerfisins lokið. Hann er nú í Lágafellsskóla þar sem hann er farinn að blómstra á ný og er loksins spenntur fyrir því að mæta í skólann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert