Guðmundur Ingi dottinn út hjá ASÍ

Vinstri græn útilokuðu í gær þátttöku í nýrri starfsstjórn. Guðmundur …
Vinstri græn útilokuðu í gær þátttöku í nýrri starfsstjórn. Guðmundur Ingi Guðbrandsson hætti við þátttöku á þingi ASÍ í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður Vinstri grænna og fyrrverandi félags- og vinnumarkaðsráðherra frá og með deginum í dag, verður ekki meðal þeirra sem ávarpa þing ASÍ sem hefst núna klukkan 10 í dag.

Guðmundur átti samkvæmt dagskrá að ávarpa þingið sem ráðherra málaflokksins, en í ljósi þeirrar stöðu sem er uppi er hann nú dottinn af dagskrá þingsins samkvæmt uppfærðri dagskrá.

Í gær féllst Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, á lausnarbeiðni Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra fyrir sig og ríkisstjórn sína. Hún óskaði þó eftir að ríkisstjórnin myndi sitja áfram, en boðað verður til kosninga sem haldnar verða 30. nóvember. 

Beint í kjölfarið upplýsti Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna um að þingmenn flokksins myndu ekki taka þátt í starfsstjórninni. Þá yrðu ráðherrar VG frá og með deginum í dag almennir þingmenn, en í tíu fréttum RÚV mátti meðal annars sjá Svandísi klára að pakka niður á skrifstofu sinni í ráðuneytinu í gær.

Finn­björn A. Her­manns­son, for­seti ASÍ, mun flytja opnunarerindi á fundinum …
Finn­björn A. Her­manns­son, for­seti ASÍ, mun flytja opnunarerindi á fundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Önnur dagskrá þingsins er þó óbreytt, en auk ávarpa frá Finnbirni A. Hermannssyni, forseta ASÍ, og Sonju Ýr Þorbergsdóttur, formanni BSRB, verða þar meðal annars Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku og loftlagsráðherra, og Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar. Munu þau vera í pallborði um orkumál.

Þá verður einnig Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, í umræddu pallborði um orkumál, auk erlendra fyrirlesara sem munu ræða um auðlindamál og samkeppnismál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert