Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður Vinstri grænna og fyrrverandi félags- og vinnumarkaðsráðherra frá og með deginum í dag, verður ekki meðal þeirra sem ávarpa þing ASÍ sem hefst núna klukkan 10 í dag.
Guðmundur átti samkvæmt dagskrá að ávarpa þingið sem ráðherra málaflokksins, en í ljósi þeirrar stöðu sem er uppi er hann nú dottinn af dagskrá þingsins samkvæmt uppfærðri dagskrá.
Í gær féllst Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, á lausnarbeiðni Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra fyrir sig og ríkisstjórn sína. Hún óskaði þó eftir að ríkisstjórnin myndi sitja áfram, en boðað verður til kosninga sem haldnar verða 30. nóvember.
Beint í kjölfarið upplýsti Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna um að þingmenn flokksins myndu ekki taka þátt í starfsstjórninni. Þá yrðu ráðherrar VG frá og með deginum í dag almennir þingmenn, en í tíu fréttum RÚV mátti meðal annars sjá Svandísi klára að pakka niður á skrifstofu sinni í ráðuneytinu í gær.
Önnur dagskrá þingsins er þó óbreytt, en auk ávarpa frá Finnbirni A. Hermannssyni, forseta ASÍ, og Sonju Ýr Þorbergsdóttur, formanni BSRB, verða þar meðal annars Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku og loftlagsráðherra, og Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar. Munu þau vera í pallborði um orkumál.
Þá verður einnig Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, í umræddu pallborði um orkumál, auk erlendra fyrirlesara sem munu ræða um auðlindamál og samkeppnismál.