Guðrún sækist eftir oddvitasætinu

Sjálfstæðisflokkurinn hlaut flest atkvæði í Suðurkjördæmi í síðustu kosningum.
Sjálfstæðisflokkurinn hlaut flest atkvæði í Suðurkjördæmi í síðustu kosningum. Samsett mynd

Allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi sækjast eftir sæti á lista fyrir komandi kosningar.

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra og oddviti flokksins í Suðurkjördæmi, segir í samtali við mbl.is að hún muni sækjast eftir oddvitasætinu áfram. Hún segir flokkinn ætla að leggja áherslu á málefnin sem skipti íslenskt samfélag og Suðurkjördæmi mestu máli.

„Það hefur enginn flokkur tekið fastar á hælisleitendamálum og það sést með þeim árangri sem við höfum náð á landamærunum og við ætlum að halda áfram. Við þurfum að ræða um húsnæðismál, menntamál og halda áfram að taka á efnahagsmálunum þar sem höfuðáherslan verður að ná áfram niður vöxtum. Það verður líka að klára Ölfusárbrúna og fleiri mikilvæg samgöngumál svo eitthvað sé nefnt,“ segir Guðrún.

Vilhjálmur sækist eftir 2. sæti á lista

Vilhjálmur Árnason, ritari Sjálfstæðisflokksins, vermdi 2. sæti á lista flokksins í síðustu þingkosningum og hann hyggst sækjast eftir 2. sæti á lista.

Hann segir í samtali við mbl.is að það sé mikilvægt að flokkurinn komi sameinaður í kosningabaráttuna.

Í Suðurkjördæmi verður kjördæmisfundur á sunnudag þar sem bæði aðal- og varamenn verða með atkvæðisrétt. Kosið verður um 1. – 6. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í röðun.

Birgir sækist eftir 3. sæti á lista

Ekki náðist í Ásmund Friðriksson við vinnslu fréttarinnar en í viðtali við Víkurfréttir segist hann ætla sækjast eftir sæti á lista flokksins. Ekki er tekið fram hvaða sæti hann mun sækjast eftir.

Ásmundur var í 3. sæti á lista flokksins í síðustu kosningum.

Birgir Þórarinsson var ekki á lista Sjálfstæðisflokksins í síðustu kosningum en gekk úr Miðflokknum yfir í Sjálfstæðisflokkinn að loknum síðustu kosningum. 

„Ég hef fengið góðan stuðning í kjördæminu og hvatningu. Þau málefni sem ég hef talað fyrir hafa fengið mikinn hljómgrunn, má þar til dæmis nefna útlendingamálin. Þetta er eitt af stóru málunum í næstu kosningum. Ég hef leitast við að sérhæfa mig í þessum málaflokki og hef m.a. setið síðastliðin þrjú ár í flóttamannanefnd Evrópuráðsins. Ég vil leggja mitt að mörkum við að móta hér stefnu til framtíðar í þessum stóra málaflokki, sem tekur tillits til fámennis þjóðarinnar og stendur vörð um okkar velferðarkerfi, sem ásókn er í,“ segir hann í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert