Hafi ekkert með ákvörðun Þórdísar að gera

„Ég fer sáttur við félaga mína, mjög, og sérstaklega við …
„Ég fer sáttur við félaga mína, mjög, og sérstaklega við sjálfan mig og menn og málefni,“ segir Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sem tilkynnti í gær að hann ætli ekki að sækjast eftir endurkjöri í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist skilja sáttur við þingflokkinn en hann tilkynnti fyrr í dag að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri. Hann segir ákvörðunina ekki tengjast því að varaformaðurinn þrengi að frambjóðendum í Suðvesturkjördæmi.

„Ég held að það sé gott fyrir alla og heilbrigt að þekkja sinn vitjunartíma, og hætta áður en fólk fer að krefjast þess að þú hættir,“ segir Óli Björn í samtali við mbl.is spurður hvers vegna hann gefi ekki aftur kost á sér á ný.

Óli, sem er 64 ára, hefur verið alþingismaður Suðvesturkjördæmis frá árinu 2016 en verið í Sjálfstæðisflokknum frá unglingsaldri.

„Það er ánægjulegt að viðbrögðin sem ég fæ eru þvert á móti hvatning um að endurskoða þessa ákvörðun. En hún stendur og hefur legið fyrir töluvert lengi,“ segir Óli enn fremur.

Óli verður „á fullu“ í kosningabaráttunni

En Óli er alls ekki að hætta í flokknum. Varla að hætta í pólitík.

Hann ætlar nefnilega halda áfram að vinna í „bakvarðasveit“ flokksins, eins og hann orðaði það í grein sem hann birti á xd.is í dag.

„Ég mun vera hér á fullu í þessari kosningabaráttu,“ segir Óli en gengið er til kosninga þann 30. nóvember, eins og kom fram í máli Höllu Tómasdóttur forseta í gær.

Ljóst er að fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur dalað verulega á síðustu árum og hefur fylgið mælst um 14% að undanförnu. 

Þingflokksformaður í tvö ár

Óli Björn var þing­flokks­formaður frá kosn­ing­um 2021 fram í sept­em­ber 2023 en þá tók Hildur Sverrisdóttir við af honum.

Aðspurður neitar hann því að ákvörðunin tengist því að varaformaður flokksins, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra, sækist eftir 2. sæti í hans kjördæmi – en ekki í Norðvest­ur­kjör­dæmi sem er henn­ar heima­völl­ur.

„Ég fer sáttur við félaga mína, mjög, og sérstaklega við sjálfan mig og menn og málefni,“

Óli Björn til­kynn­ti sína ákvörðun nefnilega skömmu áður en Þór­dís lýsti því yfir að hún sæktist eftir 2. sætinu. Í próf­kjör­inu mun hún því keppa við Jón Gunn­ars­son, fyrrverandi dóms­málaráðherra, sem hyggst einnig bjóða sig fram í 2. sæti.

Bú­ast má við því að Bjarni Bene­dikts­son formaður sæk­ist eft­ir 1. sæti í kjör­dæm­inu.

Rósa Guðbjarts­dótt­ir, bæj­ar­stjóri Hafn­ar­fjarðar, seg­ist einnig íhug­a al­var­lega að bjóða sig fram á lista ­flokks­ins í kjör­dæm­inu, og þá of­ar­lega.

Það er því ljóst að færri kom­ast að en vilja í próf­kjöri flokks­ins í Suðvest­ur­kjör­dæmi, sem hef­ur á liðnum árum verið helsta víg­i Sjálf­stæðismanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka