„Í fullkomnum rétti til að boða til verkfalla“

Magnús segir ekki koma til greina að fresta verkföllum vegna …
Magnús segir ekki koma til greina að fresta verkföllum vegna stefnu SÍS. mbl.is/Sigurður Bogi

„Við augljóslega teljum að við höfum gert allt rétt og þetta er auðvitað ein leið til henda sandi inn í tannhjól verkefnisins en félagsdómur mun taka sína afstöðu,“ segir Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands (KÍ), um stefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS), vegna verk­fallsaðgerða sem KÍ  hef­ur boðað til.

SÍS telur að ekki hafi gefist ráðrúm til að taka afstöðu til krafna KÍ og aðildarfélaga í kjaraviðræðum, þar sem eiginleg kröfugerð hafi ekki verið lögð fram áður en viðræður hófust, og hefur því stefnt KÍ fyrir félagsdóm.

Kenn­ar­ar hafa verið samn­ings­laus­ir frá 31. maí, en þá fóru af stað óform­leg­ar viðræður. KÍ boðaði hins veg­ar til verk­falla eft­ir at­kvæðagreiðslu þann 10. októ­ber. Boðaðar verkfallsaðgerðir eiga að hefjast þann 29. októ­ber næst­kom­andi, náist samningar ekki fyrir þann tíma.

Magnús ekki áhyggjur af því að niðurstaða félagsdóms verði SÍS í vil, enda hafi KÍ farið að öllum reglum sem um verkföll gilda. Útspil SÍS sé hins vegar ekki samtalinu í kjaraviðræðunum til framdráttar.

„Þetta er ekki samtalinu til framdráttar“

„Auðvitað fer tími í að undir búa slíkt verkefni og það tekur tíma frá öðru, en við erum algjörlega sannfærð um að við höfum verið í fullkomnum rétti til að boða til verkfalla og við treystum á að það verði niðurstaða félagsdóms,“ segir Magnús.

Ekki kemur því til greina að fresta boðuðum verkfallsaðgerðum.

„Nei, alls ekki. Við teljum okkur hafa löglega boðað til verkfalls og það er það sem félagsdómur þarf að ákveða. Þetta er ekki samtalinu til framdráttar að fara í þessa aðgerð en við vitum að það er ýmislegt sem kemur upp á í kjaradeilu. Þetta er bara partur af því og við teljum okkur fullkomlega í rétti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert