Milljarðaskuld sonar Karls staðfest

Karl Wernersson
Karl Wernersson Samsett mynd

Hæstiréttur hefur hafnað beiðni Jóns Hilmars Karlssonar, sonar Karls Wernerssonar viðskiptamanns, um að taka fyrir riftunarmál þrotabús Karls gegn félaginu Toska sem er í eigu Jóns.

Telur Hæstiréttur að ekki verði séð að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni.

Málið snýr að því þegar Karl afsalaði sér Toska til sonar síns fyrir 1,1 milljón króna. Toska var móðurfélag Faxa sem átti félagið Faxar. Félagið Faxar átti nær allt hlutaféð í Lyf og heilsu sem og fasteignir.

Kaupunum var rift þar sem héraðsdómur og Landsréttur töldu um gjafagjörning að ræða. Þrotabú Karls hafði eftir niðurstöðu Landsréttar kröfu á Jón Hilmar upp á ríflega 2,6 milljarða króna. Reiknað að núvirði kann krafan að nema á sjötta milljarð króna með dráttarvöxtum frá árinu 2019.

Tekist var á um dagsetningar 

Héraðsdóm­ur hafði áður gert Jóni að greiða þrota­búi Karls ríf­lega 464 millj­ón­ir króna sem var virði Toska, miðað við for­send­ur héraðsdóms á þeim tíma.

Lands­rétt­ur komst hins veg­ar að því að dag­setn­ing kaup­samn­ings hefði verið önn­ur en miðað var við í héraðsdómi og því and­virði fé­lags­ins ríf­lega 2,6 millj­arðar króna þegar að kaup­samn­ing­ur­inn var gerður.

Í dómi héraðsdóms var miðað við að dag­setn­ing und­ir­rit­un­ar kaup­samn­ings­ins hafi verið 13. janú­ar 2014 en þrota­bú Karls hélt því fram að dag­setn­ing­in væri röng og sal­an hefði gerst eft­ir 28. apríl 2016, sem Lands­rétt­ur tók und­ir.

Eru þess­ar dag­setn­ing­ar lyk­il­atriði þar sem héraðsdóm­ur hafði kom­ist að þeirri niður­stöðu að 13. janú­ar 2014 væri dag­ur­inn sem kaup­samn­ing­ur­inn var gerður.

Fengu ekki hlutaféð 

Þá var virði Toska mun minna, eða rúmlega 464 milljónir króna, þar sem Lyf og heilsa var ekki inni í samstæðunni og því samkvæmt dómi héraðsdóms þurfti Jón Hilmar aðeins að greiða þrotabúinu þá upphæð.

Í héraðsdómi vildi þrotabúið fá hlutabréfin í Toska til baka, en héraðsdómur féllst ekki á það. Þess í stað var komist að því að Jón þyrfti að greiða andvirði hlutafjárins til baka. Eins og fyrr segir hefur það nú verið metið upp á rúmlega 2,6 milljarða króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert