Ráðandi pólitísk öfl gáfust upp á verkefninu

Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, flutti opnunarávarp þingsins.
Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, flutti opnunarávarp þingsins. mbl.is/Karítas

Íslenskt samfélag er á krossgötum þar sem náttúruöfl eru ekki það helsta sem landsmenn þurfa að óttast heldur mannanna verk. Þar eru nú sérhagsmunir að verða ofan á gagnvart hagsmunum almennings meðal annars á sviði orkumála, heilbrigðiskerfisins og velferðamála. Þessi þróun er án samráðs við almenning og fjármagnseigendur hagnast meðan auknar byrgðar eru settar á almenning.

Þetta var meðal þess sem kom fram í opnunarávarpi Finnbjörns A. Hermannssonar, forseta ASÍ, á þingi ASÍ sem hófst nú í morgun.

Vandaði stjórnvöldum ekki kveðjuna

Í erindi sínu vandaði Finnbjörn stjórnvöldum ekki kveðjuna og sagði hann verkalýðshreyfinguna hafa búið við mikla óvissu undanfarið og lagt hefði verið mikið á launafólk með verðbólgu og háum vöxtum. Þessi óvissa kæmi í kjölfar nýgerðra kjarasamninga.

Nú þegar verðbólga væri farin að lækka og Seðlabankinn hefði byrjað að lækka vexti hefðu ráðmenn hins vegar gefist upp á verkefninu. Sagði hann ráðamenn þar með hafa tekið eigin hagsmuni fram yfir hagsmuni samfélagsins og spurði hann hvar stöðugleikinn væri nú sem ríkisstjórnin hefði lengi talað um. Sagði hann þetta ekki ábyrga stjórnun hjá ríkisstjórninni sem nú væri sprungin.

Finnbjörn fór því næst yfir sögu verkalýðsbaráttu hér á landi og hvað hún hefði skapað í gegnum tíðina. „Engar kjarabætur hafa fengist ókeypis,“ sagði hann og taldi meðal annars upp veikindarétt, fæðingarorlof, sjúkrasóði og orlofssjóði. Lagði hann svo áherslu á að hægt væri að tapa réttindum sem þessum hraðar en þeirra var aflað. Tók hann því næst fram að sagan sýndi að verkalýðshreyfingin væri mikilvægasta afl framfara hér á landi og væri grunnur velferðarsamfélags.

Stödd á krossgötum

Finnbjörn var á pólitískum nótum og sagði sífellt fleiri landsmenn gera sér grein fyrir að samfélagið standi nú á krossgötum. Sagði hann að hrinda yrði því að sérhagsmunir yrðu ofan á gagnvart hagsmunum almennings.

„Takist almenningi ekki að hrinda sókn sérhagsmuna og fjármagnsafla gegn sjálfri samfélagsgerðinni og megnum við ekki að verjast ásælni þessara sömu afla í þjóðarauðinn munu ríða hér yfir afdrifaríkustu samfélagsbreytingar frá stofnun lýðveldisins,” sagði hann.

Búið að hagnaðarvæða ellina

Nefndi Finnbjörn að búið væri að hagnaðarvæða ellina með einkavæðingu þegar kæmi að rekstri hjúkrunarheimila. „Þessi umskipti hafa verið knúin fram með sífellt verri þjónustu, fjársvelti og biðlistum,” sagði hann og bætti við: „Búin hefur verið til þörf sem einkaframtakinu er síðan falið að leysa.“

Sagði hann þessa þróun einnig vera í orkugeiranum og heilbrigðiskerfinu, en þessi mál eru meðal aðal umræðupunktanna á þinginu í ár.

„Raunar hafa þegar verið stigin mikil ógæfuspor með markaðsvæðingu raforkunnar þar sem fjármagnsöflin eygja ónýtta gróðavon. Vatnið, bæði það heita og kalda, vindurinn, landið sjálft – allt er þetta undir í þeirri gæslu um almannahagsmuni sem við stöndum frammi fyrir,“ sagði Finnbogi.

Nokkuð þétt var setið á Hilton Nordica nú í morgun.
Nokkuð þétt var setið á Hilton Nordica nú í morgun. mbl.is/Karítas

Aldrei meiri tekjur en ráðist að láglaunafólki

Finnbjörn gagnrýndi einnig að hrun hefði verið í viðhaldi og uppbyggingu innviða. Þar á meðal nefndi hann vegakerfið, húsnæðismarkaðinn, menntakerfið og heilbrigðiskerfið. Jafnvel réttarvörslukerfið þar sem Finnbjörn rifjaði upp að biðlistar væru það langir að óskilorðsbundnir dómar hafi fyrnst.

Sagði Finnbjörn að á sama tíma hefðu tekjur ríkis og sveitarfélaga aldrei verið meiri, en þrátt fyrir það væri ráðist gegn láglaunafólki sem bæri þyngstu byrðarnar. Þá beindi hann orðum sínum að bankakerfinu og sagði gróða þeirra sóttan í vasa almennings

Almenningi verður ekki kennt um ömurlega stjórn ríkisfjármála“

Nefndi Finnbjörn svo nýlega umræðu um atriði úr kjarasamningum þar sem skólamáltíðir fyrir grunnskólabörn voru gerðar gjaldfrjálsar. Sagði hann að nú væri valdafólk „sem nýtur sérkjara í öllum efnum“ að segja þessar máltíðir þensluhvetjandi.

„Þessi málflutningur er fyrir neðan allar hellur. Launafólk ber ekki ábyrgð á verðbólgunni, húsnæðisvandanum, einokuninni, vaxtaokrinu, verðsamráðinu, þjónustuskortinum og stöðugum hækkunum á nauðsynjavörum. Almenningi verður ekki kennt um ömurlega stjórn ríkisfjármála,“ sagði Finnbjörn og hlaut mikið lófaklapp í salnum í kjölfarið.

Ítrekaði Finnbjörn að lokum að ASÍ væri pólitísk hreyfing. „Okkar pólitíska aðkoma mótast af hagsmunavörslu fyrir fólkið í landinu,” sagði hann. „Okkar pólitíska aðkoma beinist gegn sérhagsmunum og skipulagðri viðleitni til að grafa undan þeim samfélagsgildum sem við höfum sameinast um.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert