Sendur í leyfi á degi útsendingar Kveiks

Forstöðumaður Stuðla var sendur í ótímabundið leyfi í gær.
Forstöðumaður Stuðla var sendur í ótímabundið leyfi í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Úlfur Einarsson, forstöðumaður meðferðarheimilisins Stuðla, hefur verið sendur í ótímabundið leyfi. 

Barna- og fjölskyldustofa sendi Úlf í ótímabundið leyfi í gær og staðfesti Úlfur þær fregnir við fréttastofu Ríkisútvarpsins fyrir skömmu. Kvaðst hann ekki vilja tjá sig opinberlega um málið að öðru leyti og vísaði á Barna- og fjölskyldustofu.

Stuðlar eru meðferðar­heim­ili fyr­ir börn og ung­linga á aldr­in­um 12 til 18 ára

Ástandið á Stuðlum var til umfjöllunar í þætti Kveiks í gærkvöldi en þar lýsti starfsfólk og fyrrverandi skjólstæðingur meðferðarheimilisins óboðlegum aðstæðum.

Ræddi opinskátt um ástandið

Var Úlfur sjálfur meðal þeirra sem ræddu opinskátt um erfiðar aðstæður á heimilinu sem vegna álags og eðli mála skapi hættu fyrir börnin sem þar eru vistuð sem og starfsfólk.

Úlfur sagði meðferðarheimilið vera það eina sem geti vistað drengi sem sýni alvarlega hegðunarerfiðleika, brjóti af sér eða séu í mikilli neyslu.

Þrjár deildir séu reknar á meðferðarheimilinu, neyðarvistun, meðferðardeild og stuðningsheimilið Fannafold en húsnæði Stuðla var upphaflega hugsað til að taka á móti ungmennum með fíkni- eða hegðunarvanda.

Lýsti hann m.a. í þættinum hvernig vistun barna í gæsluvarðhaldi og afplánun ætti það til að setja þjónustu við önnur börn í uppnám. Blöndun hópa barna með flókin og ólík vandamál væri sömuleiðis orðin allt of mikil að sögn Úlfars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert