Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS) hefur stefnt Kennarasambandi Íslands (KÍ) fyrir félagsdóm vegna verkfallsaðgerða sem kennarasambandið hefur boðað til þann 29. október næstkomandi.
Anton Björn Markússon, lögmaður hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, rekur málið fyrir hönd þess.
Að sögn hans er málinu stefnt til félagsdóms sökum þess að SÍS telur að því hafi ekki gefist ráðrúm til þess að taka afstöðu til krafna KÍ og aðildarfélaga þess áður en verkfallsaðgerðir voru boðaðar.
Kennarar hafa verið samningslausir frá 31. maí. Þá fóru af stað óformlegar viðræður. Kennarasambandið boðaði hins vegar til verkfalla eftir atkvæðagreiðslu þann 10. október.
„Eins og við túlkum málin hafði engin eiginleg kröfugerð verið lögð fram áður en viðræður hófust. Þess vegna gátum við ekki tekið afstöðu til krafna sem ekki voru fram komnar og þar af leiðandi reynt að afstýra verkfalli,“ segir Anton Björn.
Ákvæðið sem verið er að reyna á snýr að 14. grein laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þar segir m.a. að stéttarfélögum sé heimilt að gera verkfall í þeim tilgangi að stuðla að framgangi krafna sinna í deilum um kjarasamninga.
„Venjan er sú að menn leggja fram kröfugerð, setjast svo við samningaborðið. Þar koma fram deilur sem menn ná ekki saman um. Deilunni er vísað til ríkissáttasemjara sem eftir atvikum leggur fram miðlunartillögu. Ef það gengur ekki upp þá er boðað til verkfalla. En við lítum svo á að málin hafi aldrei komist á þann stað,“ segir Anton Björn.
Hann telur að KÍ þurfi t.a.m. að leggja fram þann kostnað sem fylgi kröfugerð stéttarfélagsins.
Fram kom í máli Magnúsar Þórs Jónssonar, formanns KÍ, í samtali við mbl.is að kennarar vilji laun í takti við þau sem háskólamenntaðir sérfræðingar fá.
Anton telur að slíkt sé óræð krafa og að sambandið líti svo á að því finnist súrt að farið hafi verið í að boða verkföll án þess að það hafi haft ráðrúm til að taka afstöðu til kröfugerðar.
„Það hefur ekkert verið nánar útlistað hver kostnaður við þetta er. Hvort þetta þýði 15% launahækkun eða 50% launahækkun. Við höfum ekki haft neina kröfugerð til að vinna með,“ segir Anton Björn.