Sjálfstæðisflokkurinn sækir á í veðbönkum

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frá því á mánudag hefur Sjálfstæðisflokkurinn sótt í sig veðrið í veðbönkum á sama tíma og Samfylkingin hefur dalað. Háum fjárhæðum hefur verið varið í veðmál þess efnis að Miðflokkurinn fái undir 14,5% fylgi.

Þetta segir Daði Laxdal, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá EpicBet, í samtali við mbl.is.

EpicBet og Coolbet eru meðal þeirra veðbanka sem bjóða fólki að veðja á það hversu mikið fylgi flokkarnir munu fá í komandi þingkosningum 30. nóvember.

Ákveðin jafnvægislína segir til um hvað veðbankar telja að flokkarnir munu fá mikið fylgi og svo er hægt að veðja á að flokkarnir fái meira eða minna fylgi. Jafnvægislínan breytist svo m.a. í takti við veðmálin.

Sjálfstæðisflokkurinn úr 16,5% í 18,5%

Að morgni mánudags voru stuðlar komnir í loftið og þá var jafnvægislínan hjá Sjálfstæðisflokknum 16,5%. Nú er flokkurinn talinn munu fá 18,5% fylgi.

Á mánudag var jafnvægislínan á Samfylkingunni 25,5% en nú er hún 23,5%.

„Og það er enn þá vinsælt að veðja á að þeir nái ekki þeirri línu,“ segir hann en það þýðir að fleiri veðja á það að fylgi Samfylkingarinnar verði minna en 23,5%.

Stór veðmál gegn Miðflokknum

Jafnvægislína Miðflokksins er í dag 14,5% en í upphafi viku var hún 15,5%.

„Miðflokkurinn er eiginlega fyndnasta dæmið hjá okkur. Það eru mjög margir að veðja yfir, en fullt af stórum veðmálum að veðja undir. Þannig það hafa komið nokkrir aðilar að veðja stórum fjárhæðum á að þeir muni ekki skora jafn vel og við höldum og skoðanakannanir,“ segir Daði.

Vinstri græn hafa lækkað um eitt prósentustig, úr 5,5% í 4,5%, og Píratar eru í 6,5%.

Flokkur fólksins er í 8,5% en Daði segir að hingað til hafi verið lítill áhugi á því að veðja á Flokk fólksins og Pírata.

Talið að Framsókn eigi meira inni en kannanir segja til um

Jafnvægislína Framsóknar er í 9,5% sem er meira en flokkurinn mælist með í könnunum.

Viðreisn er með 11,5% að svo stöddu en margir fjárhættuspilarar telja greinilega að Viðreisn eigi meira inni.

„Það er búið að vera mjög vinsælt að veðja á að þeim muni ganga betur en 11,5%, þannig það virðist vera stemning með þeim,“ segir Daði.

Jafnvægislína Sósíalistaflokksins er 3,5% og hefur verið þannig frá því á mánudag. 

Komið til að vera

Daði segir mjög vinsælt að veðja á stjórnmálaflokka og telur það komið til að vera.

Einnig er hægt að veðja á það hver verður næsti forsætisráðherra og Daði segir að þegar nær dragi kosningum þá verði einnig hægt að veðja á hluti eins og til dæmis hvaða ríkisstjórn verði mynduð eftir kosningar.

„Kúltúrinn úti í heimi er að það eigi að vera hægt að veðja á meira og minna allt sem fólki finnst áhugavert og þetta er bara það vinsælt að þetta er klárlega komið til að vera,“ segir Daði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert