Steinunn Þóra ætlar að hætta á þingi

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna.
Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Arnþór

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, ætlar ekki að bjóða sig fram í komandi kosningum. 

Þessu greindi hún frá á Facebook í dag, en Steinunn hefur verið þingmaður flokksins fyrir Reykjavíkurkjördæmi norður í tíu ár. 

„Stjórnmálastarf er að mínu mati mikilvægt og er almennt skemmtilegt og andlega auðgandi en auðvitað líka krefjandi. Það gefur færi á að kynnast flestum öngum samfélagsins en fyrst og fremst þó alls konar fólki. Fyrir þessa reynslu verð ég að eilífu þakklát. Ég lít líka stolt um öxl þegar kemur að öllum þeim málum sem mér hefur tekist að þoka áfram, bæta og í félagi við aðra að fá samþykkt - en í öðrum tilvikum stöðva eða í það minnsta sníða verstu gallana af.“

Steinunn segir í færslunni að innan VG sé nóg af góðu fólki sem muni taka við keflinu, „sem er mikilvægt, því erindi Vinstri grænna er brýnt nú sem endranær“.

Ég hlakka til að taka þátt í komandi kosningabaráttu sem almennur félagi og er sannfærð um að við munum ná góðum árangri í kosningunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert