Helstu hætturnar í Grindavík eru í kringum stóru sprungurnar sem eru girtar af með háum girðingum og verða merktar sem bannsvæði. Einstaka svæði, sem eru ekki sérlega stór, eru einnig innan bæjarins sem hafa verið girt af.
Þetta segir Árni Þór Sigurðsson, formaður Grindavíkurnefndar, spurður út í hætturnar í bænum í ljósi þess að innakstur þangað verður hindrunarlaus frá og með 21. október klukkan 6.
Árni Þór ræddi við blaðamann að loknum blaðamannafundi í Tollhúsinu í Reykjavík fyrr í dag. Auk Árna Þórs í Grindavíkurnefnd, sem tók til starfa 1. júní, eru Guðný Sverrisdóttir og Gunnar Einarsson.
Grindavíkurbær er sem stendur á lægsta almannavarnastigi, eða óvissustigi. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum leggur áherslu á að íbúar og gestir dvelji á hættusvæði á eigin ábyrgð.
„Þetta er hættusvæði og við gefum það sterklega til kynna með merkingum og auðvitað fer fólk inn á hættusvæði á eigin ábyrgð. Það verður að bera ábyrgð á sínum eigin athöfnum eða athafnaleysi,“ svarar Árni Þór, spurður hvort verið sé að setja fólk í hættu með því að gefa grænt ljós á hindrunarlausan innakstur í bæinn.
„Við hvetjum fólk til þess að vera ekki með börn, sérstaklega eftirlitslaus börn, það er meiri hætta fyrir þau sem kannski kunna ekki á skiltin,“ bætir hann við.
„En þegar við vegum allt saman teljum við að þetta sé rétt skref að auka aðgengi að bænum og að það muni hjálpa samfélaginu en við munum að sjálfsögðu meta aðstæður hverju sinni. Ef það koma upp aðstæður þar sem það er rétt að fara til baka þá verður það að sjálfsögðu gert.“
Spurður nánar út í öryggið í bænum segir hann undirbúning hafa staðið yfir síðustu vikur fyrir opnunina og að lokahönd verði lögð á öryggismál fyrir helgi, meðal annars með uppsetningu skilta.
Kostnaðaráætlun vegna öryggisráðstafana og framkvæmda í Grindavík nam 470 milljónum króna. Koma þær úr ríkissjóði fyrir utan um 30 milljónir frá Grindavíkurbæ.
„Við höfum lagt upp með það og gengið út frá því sem lögin segja um markmiðið, þ.e. að hlúa að velferð íbúanna í Grindavík og stuðla að blómlegu atvinnulífi og allar ákvarðanir sem stjórnvöld hafa tekið eru í þá átt, að Grindavík eigi að lifa. Til þess að svo megi verða þarf bærinn meira súrefni. Um leið þurfum við að læra að lifa með þessum jarðhræringum og setja okkur takmörk í því. Við vitum ekki hvað þetta ástand mun vara lengi, hvenær hugsanlega verður hættustig næst. Það kann að vera í nóvember, þannig að það er ekki víst að þessi gluggi sem er núna vari mjög lengi en það verður að koma í ljós,” segir Árni Þór jafnframt um starf nefndarinnar og stöðu mála.
„Um leið og ríkislögreglustjóri myndi lýsa yfir hættustigi myndum við fara aftur í þessa sömu aðgangsstýringu og hefur verið. Reynslan hefur sýnt okkur að við förum á hættustig talsvert áður en það kemur til goss þannig að það gerist ekki í sömu andrá að hættustigi sé lýst yfir og að það byrji að gjósa, það yrði að minnsta kosti mjög óheppilegt.“
Fram kom á blaðamannafundinum að fyrirtæki í Grindavík hefðu kallað eftir auknu aðgengi að bænum. Árni Þór segir nefndina hafa fundað með fyrirtækjum og haft samráðsfundi. Stundum hafi fulltrúar frá 20 til 30 fyrirtækjum mætt. Sum fyrirtækjanna séu stór sjávarútvegsfyrirtæki en önnur séu til dæmis ferðaþjónustufyrirtæki.
„Svo eru fyrirtæki sem munu ekki geta nýtt sér þetta, sem treysta sér ekki til þess af ýmsum ástæðum. Við vitum af því og við virðum það,“ greinir hann frá og viðurkennir að þrýstingur á frekari opnum bæjarins hafi verið allmikill frá fyrirtækjunum.
„Það eru miklir hagsmunir fyrir fyrirtækin en ég held að það séu líka miklir hagsmunir fyrir samfélagið í heild sinni að halda því svona gangandi þó að það sé með svona takmörkunum.“
Spurður hvort fólk frá Grindavík hafi sett þrýsting á aukið aðgengi að bænum nefnir Árni Þór að margir séu nú þegar búnir að selja félaginu Þórkötlu húsin sín. Gist hafi verið í 50 til 60 húsum að jafnaði og sá fjöldi muni varla aukast af einhverju ráði.
„En það eru sumir íbúar sem vilja gjarnan geta komið til Grindavíkur og þykir vænt um bæinn sinn og kannski stunda þar atvinnu eða vilja huga að sínu gamla umhverfi og sínum gömlu eignum,“ segir Árni Þór.