„Þetta er flókin mynd, ég held að það sé alveg á tæru og ekki einfalt að ná utan um og fóta sig í þessum breytum sem eru til staðar en við erum að gera okkar besta.“
Þetta segir Böðvar Tómasson, framkvæmdastjóri hjá Örugg verkfræðistofu, sem hefur unnið að áhættumati vegna Grindavíkurbæjar.
Gert er ráð fyrir því að innakstur í Grindarvíkurbæ verði hindrunarlaus og bærinn því opinn öllum frá og með 21. október næstkomandi. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi fyrr í dag sem Böðvar var viðstaddur.
Böðvar segir áhættumatið byggjast á heildargreiningu á þeim ógnum sem eru til staðar og hvaða afleiðingar þær gætu haft fyrir fólkið og fyrirtækin í Grindavík, með tilliti til þeirra varna og viðbragða sem þurfa að vera til staðar.
„Við erum að greina þetta samspil í heild og reyna að ná einhverri heildarmynd á þetta.“
Hann bendir á að óvissa verði áfram uppi og að hlutirnir geti farið öðruvísi en hægt er að sjá fyrir sökum jarðhræringanna í Grindavík og nágrenni. Þess vegna sé mikilvægt að varnirnar séu góðar sem og viðbrögðin ef hættan raungerist.
Að sögn Böðvars notaði verkfræðistofan viðurkennda aðferðafræði við gerð áhættumatsins. Engu að síður segir hann ástandið í Grindavík einstakt.
„Þetta endurspeglar kannski íslenskan veruleika. Það er meiri sveigjanleiki í hvernig svona hlutir eru meðhöndlaðir í svona minna þjóðfélagi,“ nefnir hann, spurður nánar út í vinnuna við áhættumatið.
„Við erum að meta áhættur í alls konar samhengi, hvort sem það eru áhættur tengdar brunavörnum í byggingum eða áhættur tengdar almennri vinnuvernd og vinnuöryggi,“ segir Böðvar jafnframt, beðinn um að nefna dæmi um önnur verkefni verkfræðistofunnar.