„Uggandi yfir því að svona lagað geti gerst“

Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri.
Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri. Samsett mynd/mbl.is/Margrét Þóra/Colourbox

Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, lítur bilunina sem varð hjá fjarskiptafyrirtækinu Mílu mjög alvarlegum augum.

Upp úr hádegi í gær varð rof á öllu fjarskiptasambandi, sem hafði talsverð áhrif á Sjúkrahúsið á Akureyri, en hvorki var hægt að notast við samskipti í gegnum síma, net eða net talstöðva í um 17 mínútur.

„Það urðu engin alvarleg áhrif hjá okkur í gær en alvarleikinn er samt sem áður til staðar út af þessu rofi á neti, síma og tetrasamskiptum,“ segir Hildigunnur við mbl.is.

Hún segist líta málið mjög alvarlegum augum þegar allar rafrænar samskiptaleiðir, farsímakerfið, sem sjúkrahúsið byggi öll neyðarviðbragð sín á, og Tetra-stöðvarnar detti út.

„Sem betur fer er þetta komið í lag hjá Mílu en að verða algjörlega samskiptalaus við umheiminn og innan stofnunarinnar er rosalegur öryggisbrestur. Við gátum ekki haft samband við sjúkrabíla og neyðarlínu eða undirbúið komu bráðveikra eða viðbrögð ef eitthvað alvarlegt hefði komið upp á deildum,“ segir forstjórinn.

Starfsfólkið óttaslegið

Hún segir að starfsfólk hafi verið óttaslegið og verið að athuga hvort sjúkrahúsið geti eitthvað gert varðandi frekari viðbragðsáætlanir.

„Það jákvæða er að ekkert alvarlegt kom fyrir en öryggisbresturinn varð það mikill að við erum mjög uggandi yfir því að svona lagað geti gerst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert