Ummæli Einars ekki hjálpleg en hafa ekki áhrif

Magnús telur ekki að ummæli Einars muni hafa áhrif á …
Magnús telur ekki að ummæli Einars muni hafa áhrif á samningsgerðina. Samsett mynd/Sigurður Bogi/Eyþór

Enn ber mikið í milli í kjaradeilu Kennarasambands Íslands (KÍ) og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Fundað var í gær og í dag og boðað hefur verið til nýs fundar klukkan 9 í fyrramálið.

Formaður KÍ segir það útspil SÍS að stefna KÍ fyrir félagsdóm vegna verkfallsboðunar, samtalinu í kjaraviðræðunum ekki til framdráttar. Fólk sé þó að tala saman og henda á milli sín hugmyndum.

„Svona vinnufundir ganga út það að fólk er að kasta á milli sín hugmyndum sem vonandi færa fólk nær markmiðinu. Þetta er ennþá stutt á veg komið en fólk er að tala saman sem er ávísun á að fólk nálgist en það er mikið sem ber í milli ennþá,“ segir Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ, í samtali við mbl.is.

Hafi farið að öllum reglum

Greint var frá því í morgun að SÍS hefði stefnt KÍ fyrir félagsdóm vegna verkfallsboðunar, en Magnús segir það eina leið til að „henda sandi inn í tann­hjól verk­efn­is­ins.“

Hann hefur þó ekki áhyggj­ur af því að niðurstaða fé­lags­dóms verði SÍS í vil, enda hafi KÍ farið að öll­um regl­um sem um verk­föll.

Kenn­ar­ar eru nú samn­ings­laus­ir og hafa samþykkt verk­fall í alls níu skól­um: fjór­um leik­skól­um, þrem­ur grunn­skól­um, ein­um fram­halds­skóla og ein­um tón­list­ar­skóla. Þá er í skoðun að boða til at­kvæðagreiðslu um verk­fall í ein­um fram­halds­skóla til viðbót­ar. Boðaðar verkfallsaðgerðir eiga að hefjast þann 29. október næstkomandi.

Verkefnið legið fyrir síðan 2016

Aðspurður hvort hann telji að ummæli Einars Þorsteinssonar borgarstjóra á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í síðustu viku komi til með að hafa áhrif á kjaraviðræðurnar, svarar hann neitandi. Ummælin hafi þó vissulega ekki verið hjálpleg.

„Verkefnið hefur legið ljóst fyrir í okkar huga í rauninni síðan 2016, við þurfum að jafna laun okkar háskólamenntuðu sérfræðinga við laun almennra sérfræðinga úti á vinnumarkaðnum. Við viljum að það verði fjárfest í kennurum, efla fagmennsku og stöðugleika. Svona ummæli hjálpa ekki á þeirri vegferð en það hefur ekki áhrif á samningsgerðina. Við erum í öðru samtali þar,“ útskýrir Magnús.

Sýnir hvað ástandið er viðkvæmt

Ummæli Einars féllu vægast sagt í grýttan jarðveg hjá kennurum og formaður Kennarafélags Reykjavíkur sagði í samtali við mbl.is í gær að margir kennarar hefðu sagt upp vegna þeirra. Þá væru enn fleiri að íhuga stöðu sína. Minnst 200 kennarar komu saman við Ráðhús Reykjavíkur í gær til að mótmæla orðum Einars og hvöttu hann til að hlusta á kröfur kennara.

„Mér finnst ein­hvern veg­inn öll „statistic“ bara um skól­ana okk­ar benda til þess að við séum að gera eitt­hvað al­gjör­lega vit­laust. Að kenn­ar­arn­ir séu að biðja um það að fá að vera minna með börn­um en eru samt veik­ari en nokkru sinni fyrr og kenna minna og fleiri ein­hverj­ir und­ir­bún­ings­tím­ar,“ voru orð Ein­ars sem fóru öf­ugt ofan í kenn­ara.

Magnús segir ummælin hafa verið óheppileg og að þau hafi vonandi verið sett fram af vanþekkingu, en hann skorar á borgarstjóra að biðjast afsökunar á þeim.

„Ég held að viðbrögð kennara sýni bara hvað ástandið viðkvæmt í okkar hópi, það er bara þannig sem það er og birtingarmynd þess hefur komið fram síðustu daga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert