„Út úr kú“ að tala um ábyrgðarleysi

Svandís Svavarsdóttir fyrir ríkisstjórnarfundinn í dag.
Svandís Svavarsdóttir fyrir ríkisstjórnarfundinn í dag. mbl.is/Eyþór

Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði samtal ráðherra á ríkisstjórnarfundinum hafa verið opið og heiðarlegt. Hún sagði það ekki hafa komið til greina að taka þátt í starfsstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. 

„Þetta er allt saman mjög blendið,“ svaraði Svandís spurð að fundi loknum hvernig tilfinningin sé að ljúka ríkisstjórnarsamstarfinu. 

„Sjö ár eru langur tími. Ég er búin að vera í heilbrigðisráðuneytinu í fjögur ár á algjörlega fordæmalausum tímum í gegnum Covid. Svo í matvælaráðuneytinu í alls konar verkefnum. Og svo nú síðast í innviðaráðuneytinu og spennt í alls konar verkefnum þar. Þannig að þetta er langur tími til þess að vera samfleytt í ríkisstjórn.“

Hún sagðist finna fyrir kaflaskilum í sínu lífi en sé spennt fyrir komandi kosningum. 

Ekki að hlaupa undan ábyrgð 

Svandís sagðist standa með ákvörðuninni að taka ekki þátt í starfsstjórninni. 

„Það var í raun og veru bara mjög mikilvægt að við stigum þetta skref í ljósi þess að það hafði orðið ákveðinn trúnaðarbrestur á milli mín og Bjarna – okkar í VG og forystu ríkistjórnarinnar. En ég tel það mikilvægt að við gerðum þá hreint fyrir okkar dyrum og það er á pólitískum grunni en ekki persónulegum.“

Hún sagðist vísa því á bug að flokkurinn væri að hlaupa undan ábyrgð.

„Ég held að það sé dálítið út úr kú að tala um það að við í VG séum eitthvað ábyrgðarlaus. Við höfum náttúrulega setið í ríkisstjórn í sjö ár, og áður í fjögur ár í samstarfi við Samfylkinguna, og við höfum tekist á hendur mjög flókin verkefni og höfum gert það af trúmennsku. Þannig að ábyrgð hefur alltaf verið hugsun númer 1, 2 og 3. Þannig að ég bara hafna því.“

Hafa nóg að gera 

Hefurðu ekki áhyggjur af því hvernig það kann að líta við kjósendum í komandi kosningabaráttu að þið hafið ekki tekið þátt í starfsstjórn?

„Nei, ég held að maður þurfi bara að útskýra stöðuna, og ég held að það sé bara mikilvægt. Nú er í raun og veru starfsstjórnin, hún hefur það hlutverk að halda stjórnarráðinu gangandi fram að kosningum. Við þurfum að nota allar hendur á dekk og koma okkur inn í kosningabarrátuna. Við erum núna bara að byrja þegar uppröðun á lista og vinna í gegnum kjördæmisráðin. Við vorum að setja hóp í gang til þess að brýna kosningaáherslur,“ segir Svandís og bætir við að langur verkefnalisti bíði hennar. 

„Við höfum bara nóg að gera.“

Eiga töluvert inni

Spurð hvernig henni lítist á stöðuna miðað við fylgi flokksins í síðustu könnunum svarar Svandís að VG hafi alltaf verið á kortinu sem hreyfing og stjórnmálaflokkur sem standi við það sem hann segir.

„Við eigum mikið erindi. Ég held að það væri sjónarsviptir ef rödd VG færi út úr þingsalnum. Þannig að við höfum þá tilfinningu að við eigum töluvert inni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert