Í fyrra voru sett auðlindagjöld á fiskeldi í Noregi. Nema gjöldin 25% af hagnaði fyrirtækjanna. Formaður nefndar sem setti fram tillögur um auðlindagjaldið í Noregi segir að þar í landi hafi verið beðið of lengi með að setja gjöldin á.
Iðnaðurinn og hagsmunagæsla fyrir fiskeldið hafi verið orðin of sterk þannig að erfiðara reyndist að koma gjöldunum á en þegar skattur á olíufyrirtæki var settur á áttunda áratugnum og norski olíusjóðurinn varð til í kjölfarið.
Karen Ulltveit-Moe var meðal fyrirlesara á þingi ASÍ í dag og ræddi þá auðlindagjöld almennt og þær hugmyndir sem eru á bak við auðlindagjald eða auðlindaleigu og af hverju notast ætti við slík gjöld frekar en að leggja aukna almenna skatta á fyrirtæki í þessum geirum.
Ulltveit-Moe er prófessor í hagfræði við Háskólann í Ósló og hefur setið í nokkrum opinberum nefndum varðandi skattlagningu og einnig í nefnd um fjármálahrunið í Noregi. Þá hefur hún setið í stjórn Noregsbanka og Norsk hydro.
Hún fór yfir ástæður fyrir auðlindagjaldi og sagði að þegar skortur væri á náttúrulegri auðlind eins og fiski, rafmagni eða plássi undir sjókvíaeldi, þá myndaði skorturinn aukinn ábata. Þar sem auðlindin væri eign ríkisins eða þjóðarinnar í Noregi hefði snemma komið upp sú umræða í Noregi hvernig réttast væri að þeir sem nýttu auðlindina greiddu fyrir afnotin.
Benti Ulltveit-Moe á að þegar um svæðisbundnar náttúruauðlindir væri að ræða væri ekki hægt að færa þær neitt, líkt og hægt væri t.d. þegar fjármagn væri skattlagt. Því væri gjaldtaka af auðlindum betri en þar sem hægt væri að flytja í burtu það sem skattlagt er.
Í Noregi er líklega þekktasti auðlindaskatturinn ríflegur skattur sem lagður er á olíufyrirtæki sem vinna olíu undan ströndum Noregs. Var hann undirstaðan í norska olíusjóðnum sem í dag er kallaður auðlindasjóður, en til viðbótar við gjald á olíuvinnslu hefur verið auðlindagjald á raforkuframleiðslu með vatnsafli og nýlega kom gjald á rafmagnsframleiðslu úr vindorku og fiskeldi.
Ulltveit-Moe rifjaði upp að í Noregi hafi lengi verið mikil samstaða um auðlindagjald, enda hafi það aukið mikið velsæld þjóðarinnar. Nefndi hún sem dæmi að 25% af fjárlögum ríkisins samkvæmt nýjustu fjárlögum væri fjármögnuð með greiðslum úr sjóðinum.
Þar með væri hægt að setja aukna fjármuni t.d. í menntakerfið og heilbrigðisþjónustu. Hún tók þó fram að með auðlindagjaldi færu ekki alltaf allir fjármunir beint í auðlindasjóð, heldur færi helmingur fjármagnsins til nærsveitarfélaga í þar sem auðlindirnar væru í tilfelli fiskeldis.
Rakti hún því næst hvernig fiskeldi hefði verið mjög lítið í sniðum í Noregi rétt eftir aldamót og um 700 fyrirtæki í rekstri, enda mátti hver einstaklingur aðeins vera skráður fyrir einu leyfi. Um aldamótin var frekari samþjöppun heimiluð og fækkaði eldisfyrirtækjum í um 100 meðan framleiðsla þeirra og afkoma margfaldaðist.
Sagði hún að leyfin sem hafi verið veitt á þessum tíma hafi lang flest verið ótímabundin og að ekkert hafi verið greitt fyrir þau. Sagði hún áætlað verðmæti leyfanna í dag nema um 200 milljörðum norskra króna, eða sem nemur um 2.600 milljörðum íslenskra króna.
Til samanburðar sagði hún að eldisfyrirtækin hefðu greitt um 7 milljarða norskra króna í skatta til ársins 2019 þegar farið var að skoða auðlindagjald af greininni.
Sem fyrr segir stýrði Ulltveit-Moe nefnd sem var falið að koma með tillögur um auðlindagjald á greinina. Ítrekaði hún að um væri að ræða leigugjald frekar en skatt, þar sem um væri að ræða afnotagjald af sameiginlegri auðlind.
Sagði hún að nokkur atriði hafi þurft að skoða þegar kom að því að skoða gjaldtöku. Meðal annars á hverju gjaldið ætti að byggja. Hvort það væri á virði eða magni vörunnar sem seld er. Hvort gjaldið ætti að vera óháð eða háð hagnaði, hver áhrifin væru á fjárfestingu og störf í greininni, hvort gjaldaleiðin myndi auka samkeppni o.s.frv.
Niðurstaðan var auðlindagjald sem byggði á hagnaði. Þar með væri hið opinbera að taka sveiflur með fyrirtækjunum ef vel eða illa gengi, en væri ekki öruggt með tekjur út frá til dæmis tekjum. Þar sem helmingur gjaldsins fer til nærsveitarfélaga segir hún að þetta fyrirkomulag hafi einnig aukið hvata fyrir sveitarfélög til að bjóða upp á staðsetningar fyrir eldið.
Ulltveit-Moe segir að eftir að hafa setið í nokkrum opinberum nefndum í Noregi hafi samt sem áður komið sér á óvart hversu harkaleg baráttan var þegar kom að auðlindagjöldum í fiskeldi.
Þannig hafi fyrirtækin verið orðin nokkuð stór og sterk þegar setja átti gjaldið á og þau beitt sér harkalega í hagsmunabaráttu.
Í samtali við mbl.is eftir erindið sagði hún að sú harka hefði að sínu mati orðið persónuleg gagnvart sér, eitthvað sem hún hefði ekki kynnst áður í nefndarstörfum sem þessum.
Þá rifjar hún upp að þrátt fyrir almenna samstöðu með auðlindagjöldum áður fyrr hafi staðan verið aðeins snúnari með fiskeldið. Þegar olíugjaldið var sett á voru það amerísk stórfyrirtæki sem gjaldlagningin lenti á, en ekki norsk fyrirtæki í norskri eigu. Þá voru mörg eldisfyrirtækin búin að mynda sterk tengsl í sveitarfélögum víða um landið og voru stór atvinnurekandi á svæðunum og jafnvel styrktaraðili t.d. íþróttaliða og menningarstarfs.
Einhver pólitísk andstaða var við málið, en Ulltveit-Moe segir það samt hafa gengið nokkuð vel í gegn. Spurð hvað Íslendingar ættu að hafa í huga ef til þess kæmi að setja á slíkt gjald sagði hún að ekki megi bíða of lengi að taka ákvörðun. Í Noregi hafi fiskeldi tekið stökk upp á við í framleiðslu í kringum 2024 og það hafi tekið tvo áratugi að setja á auðlindagjald.
„Við biðum of lengi,“ segir Ulltveit-Moe. „Aðalatriðið er að bíða ekki of lengi því ef það er beðið of lengi verður mjög erfitt að setja slíka skatta á því hagsmunagæslan verður mjög sterk og þá fer fólki að þykja slík skattlagning ósanngjörn.“