Áttu örstutta kveðjustund í ríkisstjórninni

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á leið inn til ríkisráðsfundar á Bessastöðum.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á leið inn til ríkisráðsfundar á Bessastöðum. mbl.is/Hákon

Bjarni Benediktsson og Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð segjast fyrst og fremst horfa til kosninga frá og með deginum í dag. Bjarni segir kveðjustundina ekki sára.

„Nei, nei, við áttum kannski örstutta kveðjustund í ríkisstjórninni,“ sagði Bjarni er hann gekk inn á ríkisráðsfund til að ljúka samstarfi Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins með formlegum hætti og stofna starfsstjórn síðarnefndu flokkanna.

„Við erum hér komin saman til að fylgja eftir ákvörðunum sem við tókum fyrir nokkrum dögum, um að ganga til kosninga og biðjast lausnar,“ segir Bjarni.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Hákon

Komið á endastöð

Spurður hvort ráðherrar fráfarandi ríkisstjórnar hafi náð að útkljá ósætti sín á milli á ríkisstjórnarfundi í gær hlær forsætisráðherrann og áréttar að fyrst og fremst sé um pólitískt ósætti að ræða.

„Og það er allt í lagi. Það verður að vera þannig í lýðræðissamfélagi að fólk geti verið á öndverðri skoðun.“

Aðspurð kveðst Þórdís ekki telja ákvörðunina vera mistök. Formaður flokksins hafi einfaldlega metið þetta bestu pólitísku ákvörðunina í stöðunni og haft sig og þingflokkinn með í ráðum.

„Þetta samstarf var einfaldlega komið á endastöð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert