Setja á auðlindagjald á fiskeldi, orkuframleiðslu og ferðaþjónustu og hækka veiðigjald á útgerðir. Þetta segir Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að slíkt þyrfti að skoða, en bendir þó á að samanburður við Noreg sé ekki alveg réttur. Sérstaklega á það við þegar horft er til auðlindagjalds á orkufyrirtæki, því þar er orkan seld úr landi, meðan hér sé hún nýtt til fyrirtækjareksturs á Íslandi.
Guðlaugur segir jafnframt að litlar og meðalstórar útgerðir hafi undanfarið verið skattlagðar of mikið, en að „það hafi ekki verið jafnt gefið“ í tilfelli stærri útgerða.
Þetta var meðal þess sem kom fram í pallborðsumræðum um orkumál á þingi ASÍ í gær. Þar ræddu þau Kristrún, Guðlaugur, Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri og Bjarni Bjarnason, fyrrverandi forstjóri Orkuveitunnar, um stöðu orkumála hér á landi, en einnig um auðlindagjöld, sem norskur hagfræðiprófessor hafði skömmu áður farið ítarlega yfir.
Kristrún sagði það besta sem Íslendingar hefðu gert í auðlindamálum væri að hafa Landsvirkjun. „Við höfum aldrei þurft að hafa áhyggjur af því að arðsemin fari bara eitthvað,“ sagði hún og bætti við að nú þegar meira væri um einkarekin orkuframleiðslufyrirtæki, þá þyrfti að fá skýran ramma og leggja á orkuskatt.
Guðlaugur tók undir með að það þyrfti skýrari ramma, ekki síst varðandi skipulagsmál og hvar væri hægt að virkja vindinn. Sagðist hann skilja að fólk vilji ekki sjá endalausa vindorkugarða þegar það keyri um landið. Í ljósi þess að almennt vilji fólk virkja vindinn, en fæstir vilji hafa það nálægt sér, sé hins vegar nauðsynlegt að þetta skilji meira eftir í nærsamfélaginu að hans sögn. Jafnframt benti Guðlaugur á að ekki væri hægt að stýra öllu í tengslum við orkumál, meðal annars þegar kæmi að smærri virkjunum og að það þyrfti að vera rými fyrir einkaframtakið til að þróast og finna betri leiðir bæði í framleiðslu og nýtingu.
Bæði voru þau spurð út í auðlindagjöldin sem rædd höfðu verið á fundinum og hvort þau teldu að meira ætti að fást fyrir auðlindir landsins og horfa ætti til Noregs í þeim efnum. Þar eru nú auðlindagjöld af olíuframleiðslu, raforkuframleiðslu og fiskeldi.
„Algjörlega, já,“ svaraði Kristrún. Bætti hún við að þetta væri lykilatriði þegar kæmi að samfélagslegri sátt á komandi árum. Að fólk upplifði að meira fengist fyrir auðlindirnar.
Í samtali við mbl.is eftir pallborðið sagði Kristrún að of Íslendingar hafi „fókusað of mikið á eina atvinnugrein, sjávarútveginn, og af góðri ástæðu. Vegna þess að það hefur verið mikil arðsemi í greininni. En við þurfum líka að tala um gjöld í öðrum greinum þar sem er sannarlega auðlindarenta eða gæti skapast auðlindarenta.“
Nefndi hún í því samhengi sömu greinar og Norðmenn, eins og rafmagnsframleiðslu og fiskeldi, en einnig ferðaþjónustu. „Ferðaþjónustan nýtir auðvitað ákveðin náttúrugæði og það þarf að finna útfærslu hvernig er hægt að finna eðlilega gjaldtöku á því. Það þarf líka að skoða fiskeldið eftir því sem það þróast og arðsemin og auðlindarentan verður til. Svo erum við að horfa til orkunnar,“ segir Kristrún.
Í Noregi var samþykkt í fyrra að setja á 25% skatt á hagnað eftir almenna fyrirtækjaskatta á fiskeldisfyrirtækin. Spurð hvort hún sé að horfa á álíka tölu segir Kristrún að það sé útfærsluatriði. „Aðalmálið er að pólitíkin sé skýr. Það þarf að tryggja að auðlindarenta skilar sér til þjóðarinnar. Við þurfum að horfa heildstætt á þetta og það þarf að skoða auðlindagjöld í orkuvinnslu. Það þarf að hækka þau í sjávarútvegi. Þau þurfa að vera til staðar með einhverju formi í ferðaþjónustu, en við þurfum að finna hvar það svigrúm er, en þau geta verið hærri en þau eru í dag, svo sannarlega. Og þetta skiptir máli næsta áratuginn.“
Spurð hvort þetta sé eitthvað sem Samfylkingin ætli að setja á oddinn í kosningabaráttunni segir hún svo vera. „Þessi ríkisstjórn hefur ekki getað komið sér saman um að styrkja þessa umgjörð, en Samfylkingin mun breyta því ef hún kemst í forystu.“
Þegar Guðlaugur var spurður út í afstöðu sína til auðlindagjalda og hvort horfa ætti til fordæmis Noregs í þeim efnum sagði hann að það væri „eilífðarmál, skattkerfið, hvernig menn líta á það.“ Ítrekaði hann þá afstöðu sína að heimili og lítil og meðalstór fyrirtæki ættu að njóta þess að hafa lágt orkuverð.
Þá varaði Guðlaugur við að horft væri of mikið til Noregs varðandi auðlindaskatt á raforkuframleiðslu. Sagðist hann leggja áherslu á að hér væri ódýr orka bæði fyrir heimili og minni fyrirtæki og slíkt ýtti undir velsæld og nýsköpun. Í Noregi væru landsmenn hins vegar ekki að njóta raforkuframleiðslunnar í jafn miklum mæli og hér. Það stafaði af því að lagðir hefðu verið rafmagnsstrengir frá Noregi og tengdir við evrópska raforkukerfið. Það hefði leitt til mikilla hækkana undanfarið m.a. eftir innrás Rússa í Úkraínu. Hér á landi hefðu áhrifin hins vegar verið lítil sem engin.
Jafnframt benti Guðlaugur á að hann væri með frumvarp sem ætti að skila meiri arði til nærsamfélagsins vegna orkuframleiðslu.
Var hann spurður á ný um auðlindagjöldin og nú sérstaklega um veiðigjöld og sjávarútvegsfyrirtækin. „Ef ég ætla að fara yfir skattamálin í sjávarútveginum held ég að við höfum gert ákveðin mistök þar sem ég get farið yfir. Tel að við höfum verið að skattleggja of mikið litlar og meðalstórar útgerðir, en stærri hafi, það hafi ekki verið jafnt gefið þar,“ sagði Guðlaugur að lokum.