Bjarni sagði sig úr VG

Bjarni Jónsson.
Bjarni Jónsson. mbl.is/Kristófer

Bjarni Jónsson, þingmaður VG, tilkynnti á aðalfundi Landssamtaka smábátaeigenda, sem fer nú fram, að hann hefði sagt sig úr flokknum. 

Bjarni hefur verið alþingismaður Norðvesturkjördæmis fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð síðan 2021. Hann hefur m.a. gegnt formennsku í um­hverf­is- og sam­göngu­nefnd­ Alþing­is 

Áður var hann varaþingmaður Norðvesturkjördæmis í mars 2017, janúar til febrúar 2018, október 2019 og janúar – febrúar 2020. 

Veran í VG orðin æ þungbærari

Bjarni greinir einnig frá þessu í færslu sem hann birti á Facebook. Þar skrifar hann:

„Flestum hefur lengi verið ljóst að flokkurinn hefur sveigt af leið og brugðist grunngildum sínum og væntingum þeirra sem stóðu að stofnun hans. Hann hefur brugðist mörgu því fólki sem hefur stutt hann. Á síðustu vikum og mánuðum hef ég styrkts í þeirri trú að ég eigi ekki samleið með VG, þar sé ekki farvegur fyrir hugsjónir og mörg þau brýnustu mál sem ég hef barist fyrir og var kosinn til og ljóst að veran í VG hefur ekki síst orðið æ þungbærari vegferð fyrir fólk með landsbyggðarhjarta.

Þessi ákvörðun hefur í huga mínum legið fyrir í nokkurn tíma en ég kaus að bíða með þangað til búið væri að rjúfa þing og ákveða kjördag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert