Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði í ræðu sinni á Alþingi tíma kominn til að fólkið í landinu fengi valdið aftur í sínar hendur með nýrri ríkisstjórn.
Hún sagði það særa þjóðarstoltið að horfa upp á meðferðina á eldra fólki í landinu og minntist í því samhengi á langa bið þess á bráðamóttöku.
Sömu fréttirnar hefðu jafnframt birst í fjölmiðlum ár eftir ár af aðfluttu verkafólki sem brotið hefði verið á án afleiðinga. Stjórnvöld hefðu sofið á verðinum.
Börn og unglingar þyrftu að bíða mánuðum saman og jafnvel ár eftir nauðsynlegri þjónustu og greiningu. Fólk sem glímdi við fíkn fengi heldur ekki nauðsynlega aðstoð.
Hún sagði velferðarkerfið ekki hafa virkað eins og það ætti að gera og bætti við að óstjórn hefði m.a. verið í efnahagsmálum. Boðaði hún nýtt upphaf með sterkri forystu.
„Nú er tími til breytinga og ef fólk vill tilheyra þjóð sem er stolt af sterkri velferð þá er líklega best að kjósa Samfylkinguna,“ sagði hún.