Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sagði í ræðu sinni á Alþingi í morgun að efsta lagið í samfélaginu hefði grætt ævintýralega mikla peninga í tíð fráfarandi ríkisstjórnar og sópað til sín æ stærri sneið af kökunni.
Vísaði hún í þessu samhengi í grein Bjarna Benediktsson forsætisráðherra fyrir síðustu kosningar um að yrði Sjálfstæðisflokkurinn ekki við völd myndi verðbólgan fara upp úr öllu valdi og afborganir af húsnæðislánum stóraukast. Þarna hefði Bjarni farið með öfugmæli miðað við það sem síðar varð með mikilli verðbólgu og háum vöxtum.
„Á meðan millistéttin og neðri tekjutíundir sligast undir húsnæðiskostnaði og aukinni skattbyrði hefur efsta tíundin haft tækifæri til að græða stjarnfræðilegar upphæðir í fjármagnstekjur,“ sagði Þórhildur Sunna.
Hún sagði kjósendur fá tækifæri í kosningunum til að hafna íhaldinu og hræðsluáróðri þess.
„Við getum hafnað þeirri mýtu að verði stóriðjunni ekki að ósk sinni um að hér verði virkjuð hver einasta lækjarspræna ellegar slokkni ljósin á öllu landinu. Við getum hafnað þeirri heimssýn að nú þurfum við víggirðingar hringinn í kringum landið og lögreglumenn með byssur á hverju horni til að passa okkur frá hvert öðru,“ sagði Þórhildur Sunna.
„Við getum hafnað ríkisstjórn sem hefur brugðist sínu hlutverki að gera allt sem í hennar valdi stendur til að stöðva þjóðarmorðið á palestínsku þjóðinni. Þá getum við hafnað því að hagsmunaaðilar í iðnaði og sjávarútvegi séu best til þess fallnir að vernda auðlindir okkar og náttúru og stjórna öllu bak við tjöldin,” bætti hún við.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði að sér liði eins og hún og almenningur væri að losna undan leiðindum og grámyglulegum drunga.
„Viðbrögðin úti í samfélaginu við þessum stjórnarslitum eru slík að það er alveg augljóst að þetta endalausa brambolt og hringlandaháttur stjórnarflokkanna hefur hvílt á þjóðinni eins og mara, enda tekur það á að vera í stormasamri sambúð þar sem enginn er hamingjusamur og lítið þokast áfram,“ sagði Þorgerður Katrín.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, kvaðst fagna því að ríkisstjórnin hefði liðast í sundur.
„Loksins er því lokið, lengsta dauðastríði nokkurrar ríkisstjórnar í íslenskri stjórnmálasögu sem staðið hefur ekki bara undanfarna daga og vikur heldur undanfarin ár því að allt frá því að skjólinu sem Covid veitti þessari ríkisstjórn til að framlengja líf hennar lauk og við fórum aftur að ræða stjórnmál á Íslandi hefur blasað við betur og betur með hverri vikunni og hverjum mánuðinum að þetta var vonlaus ríkisstjórn,“ sagði Sigmundur Davíð.