„Ég nenni ekki að vera súr“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fráfarandi ráðherra Vinstri grænna.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fráfarandi ráðherra Vinstri grænna. mbl.is/Hákon

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fráfarandi félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, kveðst ekki súr gagnvart Sjálfstæðismönnum og segist þakklátur fyrir sín sjö ár sem ráðherra. 

Rík­is­stjórnarsamstarfi Vinstri grænna, Fram­sókn­ar og Sjálf­stæðis­flokks­ins lýkur með formlegum hætti á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í kvöld en starfs­stjórn tveggja síðar­nefndu flokk­anna tekur þar við.

Spurður hvort hann sé sáttur við ákvörðun sína um að taka ekki sæti í starfsstjórninni svarar Guðmundur Ingi:

„Já, ég er sáttur við hana. Ég held að við þurfum öll að leggja þetta á bak við okkur núna og fara út í kosningabaráttu og berjast fyrir okkar gildum.“

Gefur kost á sér í fyrsta sæti

Hann kveðst ganga sáttur frá borði en segist þó síður en svo vera horfinn á brott enda á leið inn í kosningabaráttu þar sem hann hyggst gefa kost á sér í fyrsta sæti í sínu kjördæmi.

Aðspurður kveðst hann ekki súr út í Sjálfstæðismenn þótt auðvitað hafi hann oft verið súr út í eitthvað í samstarfinu. Hann hafi þó oftar verið glaður og ánægður með það sem vel hefur farið.

„Þannig að veistu það, nei, ég er ekkert súr. Ég nenni ekki að vera súr – það er ekki þess virði.“

Stuðningur við fjárlögin ekki sjálfsagður

Spurður hvort gera megi ráð fyrir stuðningi hans og flokksfélaga við fjárlögin sem VG hafði aðkomu að í ríkisstjórn segir Guðmundur Ingi það þurfa að koma í ljós.

Hann leggi þó ríka áherslu á að þingið taki höndum saman í þessu verkefni.

„Þau taka náttúrulega alltaf breytingum inni í þinginu, svo við verðum líka að sjá til hverjar þær breytingar verða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert