Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur, fundar í hádeginu með fulltrúum kennara í ráðhúsinu.
Einar var erlendis þegar kennarar mótmæltu ummælum sem hann lét falla á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga.
Kennarar komu inn í ráðhúsið og ræddu þar m.a. við Dag B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóra og staðgengil Einars, og borgarfulltrúa.
Í dag gefst fulltrúum kennara tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri.
Ummælin sem Einar lét falla voru eftirfarandi: „Mér finnst einhvern veginn öll „statistic“ bara um skólana okkar benda til þess að við séum að gera eitthvað algjörlega vitlaust. Að kennararnir séu að biðja um það að fá að vera minna með börnum en eru samt veikari en nokkru sinni fyrr og kenna minna og fleiri einhverjir undirbúningstímar.“
Kennarar tóku illa í þessi ummæli og sögðu þau bera vott um að borgarstjórinn bæri ekki virðingu fyrir störfum þeirra. Einar ritaði grein á Vísi þar sem hann sagði að honum þætti leitt að þeir hefðu túlkað orð hans með þeim hætti.