Ekkert kosningaeftirlit heldur kosningabarátta

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata. mbl.is/Eyþór

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður þingflokks Pírata, verður ekki við kosningaeftirlit í Moldóvu á vegum Evrópuráðsþingsins um helgina eins og til stóð.

„Ég er hætt við. Ég átti að fara í kosningaeftirlit í Moldóvu en nú er ég fara í kosningabaráttu á Íslandi,“ segir Þórhildur Sunna, sem gaf sér smátíma til að ræða við blaðamann í miðjum skrifum ræðu sinnar um þingrof en fundur á Alþingi hefst klukkan 10.30 þar sem forsætisráðherra tilkynnir um þingrof og alþingiskosningar.

Þórhildur Sunna hefur verið formaður í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins frá árinu 2017 og var kjörin formaður laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðs.

Búið að opna fyrir framboð í öllum kjördæmum

Þórhildur Sunna segir að undirbúningur Pírata fyrir alþingiskosningarnar sem fram fara 30. nóvember næstkomandi gangi vel.

„Við erum búin að opna fyrir framboð í öllum kjördæmum og ég hvet fólk eindregið til þess að taka þátt í lýðræðinu með okkur og bjóða sig fram. Það er sérstakt ákall til landsbyggðarinnar að bjóða fram krafta sína,“ segir Þórhildur við mbl.is.

Hún bendir á að á x.piratar.is sé hægt að skrá sig í Pírata og hægt að taka þátt í prófkjörinu og kynna sér það.

„Sjálf á ég eftir að bjóða mig fram en ég geri það um leið og ég er búin að flytja þingrofsræðu mína. Píratar gefa engan afslátt á lýðræðinu og þess vegna erum við með prófkjör í öllum kjördæmum. Við ætlum ekki að fórna því þótt skammur tími sé til stefnu. Það er enginn útilokaður frá þátttöku. Eina skilyrðið er að þú sért kjörgengur til alþingiskosninga og tilbúinn að vera flokksbundinn Pírati,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert