Eyjamaður skellir sér í framboð

Gísli segir stöðu samgöngumála í kjördæminu vera bagalega.
Gísli segir stöðu samgöngumála í kjördæminu vera bagalega. Ljósmynd/Aðsend

Eyjamaðurinn Gísli Stefánsson, bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir komandi þingkosningar.

Þetta kemur fram í færslu hans á Facebook.

Hann hefur setið sem bæjarfulltrúi undanfarin tvö ár og segir að hann sé nú farinn að finna fyrir stuðning frá röddum innan og utan flokksins sem honum þykir ómögulegt að neita.

Gísli kveðst hafa haft áhuga á stjórnmálum og samfélagsmálum alla tíð og segir hann að sá áhugi hafi aðeins aukist með aukinni þátttöku í stjórnmálum og flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins.

Bág staða samgöngumála í kjördæminu

„Ég hef grætt mikið á bæjarfulltrúastarfinu þó það kjörtímabil sé rétt hálfnað og séð að enn frekari þátttaka í stjórnmálum getur bara hjálpað mér við að hjálpa samfélaginu mínu hér í Eyjum,“ skrifar hann.

Gísli segir að starfið hafi veitt honum góða innsýn inn í stöðu kjördæmisins og þar megi helst nefna bága stöðu samgöngumála víða um kjördæmið.

„Þar er ekki staðan aðeins bagaleg í Eyjum heldur er mál Ölfusárbrúarinnar á erfiðum stað, 13 einbreiðar brýr á þjóðvegi 1 til Hornafjarðar, efnislitlir malarvegir í uppsveitum, og svo má lengi telja,“ skrifar hann.

Í Suður­kjör­dæmi verður kjör­dæm­is­fund­ur á sunnu­dag þar sem bæði aðal- og vara­menn verða með at­kvæðis­rétt. Kosið verður um 1. – 6. sæti á fram­boðslista Sjálf­stæðis­flokks­ins í Suður­kjör­dæmi í röðun.

Nauðsynlegt að klára tvöföldun Reykjanesbrautar

Gísli segist vilja sjá samfélagið sitt í Eyjum blómstra áfram sem hluti af raunhagkerfinu. Það muni hins vegar ekki gerast nema orkumálin komist í „þann farveg sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að vinna að og rannsóknir á göngum hefist sem allar fyrst.“

„Heilbrigðismálin og öryggi vegfarenda í kjördæminu standa enn höllum fæti þar sem enn á eftir að koma í gagnið sjúkraþyrlu á suðurlandi, verkefni sem var búið að fjármagna fyrir heimsfaraldur en var sett á ís. Einnig er nauðsynlegt að klára sem allra fyrst tvöföldun Reykjanesbrautar til að auka öryggi íbúa svæðisins og ferðamanna,“ skrifar hann. 

Gísli heitir því að starfa að þessum verkefnum ásamt öðrum mikilvægum fyrir Vestmannaeyjar, Suðurkjördæmi og landið allt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert