Fá að koma með báða makana á árshátíðir

Tvær stoltar mæður og faðir við skírn Amelíu Sólar á …
Tvær stoltar mæður og faðir við skírn Amelíu Sólar á árinu, glænýrrar dóttur þeirra Guðjóns, Þórunnar og Margrétar. Nú er komið að Margréti að ganga með næsta barn. Ljósmynd/Aðsend

„Við Guðjón byrjuðum saman 2012 og giftum okkur 2016 og nokkrum árum eftir að við byrjuðum saman langaði okkur að fara að prufa einhverjar nýjungar í svefnherberginu,“ segir Þórunn Margrét Sigurðardóttir frá, þrítugur líffræðingur sem starfar við gæðaeftirlit hjá Lýsi hf.

Svo sem ötulir lesendur Morgunblaðsins þekkja til fjallar blaðið daglega um fólk sem fagnar stórafmælum, eitt stórt viðtal birtist þá jafnan og svo lítil umfjöllun um annað afmælisbarn sem gefur lauslegt yfirlit yfir líf viðkomandi, starf, maka og börn. Þarna var Þórunn stödd á miðvikudaginn í síðustu viku og kann eftirfarandi klausa að hafa vakið athygli einhverra:

„Eiginmaður Þórunnar er Guðjón Viðar Stefánsson, f. 1991, lagerstjóri hjá Sölufélagi garðyrkjumanna, og kærasta þeirra er Margrét Sól Reinharðsdóttir, f. 1994, lyfjafræðingur hjá Lyfjaveri. Dóttir þeirra er Amelía Sól, f. 2024, og þau eiga hundinn Tíbrá.“

Ráku menn á ritstjórn Morgunblaðsins þegar upp stór augu yfir hundinum Tíbrá og var ákveðið að freista þess að lokka Þórunni í viðtal um nafngift dýrsins. Eða hvað?

Vitanlega bregður blaðamaður hér á leik, auðvitað var það kærasta þeirra hjóna, lyfjafræðingurinn Margrét Sól, sem vakti stórathygli. Þótt ekkert sé eðlilegra en að hjón, sambúðarfólk og pör eigi vingott við fleira fólk, önnur pör sem einstaklinga, þótti blaðamanni hvort tveggja fagurt og hugdjarft að tefla opinberu sambandi við þriðja aðila fram í afmælisgrein í fjölmiðli.

Vinnuveitendur makanna þriggja samþykktu strax allir að hverju þeirra fyrir …
Vinnuveitendur makanna þriggja samþykktu strax allir að hverju þeirra fyrir sig væri heimilt að mæta með báða maka sína á árshátíðir og jólahlaðborð. Ljósmynd/Aðsend

Hittu önnur pör áður en ástin knúði dyra

Slíkt kallar á viðtal við hjónin og kærustuna og voru öll þrjú boðin og búin að veita það þegar blaðamaður falaðist eftir.

Þannig atvikaðist það að daginn eftir þrítugsafmæli Þórunnar sátu þau hjónin og Margrét þrjú saman við símtækið með hátalarann á og ræddu við blaðamann og höldum við nú áfram þar sem frá var horfið í frásögn líffræðingsins og afmælisbarnsins.

„Við prófuðum til dæmis að hitta önnur pör og bjóða þriðju manneskju með okkur upp í rúm,“ segir hún frá og kveður aðalvettvang samskipta á þessum vettvangi við aðra áhugasama hafa verið samfélagsmiðilinn Snapchat.

Guðjón og Þórunn kynntust í kórnum Vox Populi en á …
Guðjón og Þórunn kynntust í kórnum Vox Populi en á myndinni eru hins vegar þrjár kórsystur sem allar heita Þórunn. Ljósmynd/Aðsend

Fyrir þremur árum kynntust þau svo Möggu, eins og þau hjónin kalla Margréti, á stefnumótaforritinu Tinder og nú segir lyfjafræðingurinn og kærastan frá: „Ég var búin að vera í löngu sambandi, til átta ára, sem var nýlega lokið og mig langaði að prufa eitthvað nýtt svo ég fór á Tinder og var búin að vera eitthvað þar þegar ég sá þau með sinn prófíl, par sem var að leita að einhverju spennandi,“ segir Magga frá.

Hún hafi ekki ætlað sér neina alvöru, enda mótaðilarnir þegar í sambandi, „ég ætlaði bara að hitta þau nokkrum sinnum, það átti ekki að verða neitt meira og áttu aldrei að verða neinar tilfinningar í spilinu, þetta átti bara að vera eitthvað skemmtilegt og svo ætlaði ég að fara að finna mér einhvern maka sem ég ætlaði að eyða lífinu með“, segir Magga hispurslaust frá.

Enginn ræður sínum næturstað

En hið ókennda örlagavald hefur löngum verið ríkt með íslenskri þjóð og því verið sýnd sú virðing sem tilhlýðileg telst, um það vottar ógrynni orðtaka fornra; eigi má sköpum renna, enginn flýr örlög sín, eigi verður ófeigum í hel komið og enginn ræður sínum næturstað. Ræður maður yfir höfuð nokkrum sköpuðum hlut?

„Ég byrjaði að tala við þau í nóvember 2021 og mér fannst þegar ég hitti þau fyrst að ég tengdi mjög vel við Guðjón,“ heldur Magga áfram, „hann er mjög opinn en það tók aðeins lengri tíma fyrir mig að kynnast Þórunni.“

Eins og oft gripu örlögin þó í taumana með þeim hætti að Þórunn og Magga fengu að kynnast í rólegheitum.

„Ég var búin að vera í löngu sambandi, til átta …
„Ég var búin að vera í löngu sambandi, til átta ára, sem var nýlega lokið og mig langaði að prufa eitthvað nýtt svo ég fór á Tinder og var búin að vera eitthvað þar þegar ég sá þau með sinn prófíl, par sem var að leita að einhverju spennandi,“ segir Magga. Ljósmynd/Aðsend

Guðjón var nýbyrjaður í nýrri vinnu og var viku heima og viku í burtu, leiðsögumaður í jöklaferðum. „Það hjálpaði okkur Þórunni að kynnast betur, þessa viku sem hann var í burtu gátum við verið bara tvær og kynnst betur,“ heldur Magga áfram.

Vatnaskil í febrúar 2022

Leið svo og beið og þremenningarnir tengdust nánari böndum þar til komið var að stórri ákvörðun og vatnaskilum í sambandinu í febrúar 2022.

„Þá vorum við öll sammála og ég kynnti þau fyrir einni af mínum bestu vinkonum og þau kynntu mig fyrir góðum vini sínum og eftir það viðurkenndum við að þetta stefndi í eitthvað alvarlegra en við héldum. Við vorum öll sammála um að tilfinningar væru komnar í spilið,“ segir Magga frá.

Komu þessi tíðindi flatt upp á þau sem þið kynntuð fyrst fyrir hvert öðru eða hvernig var þessu tekið?

„Þessi sem ég kynnti þau fyrir er vinnufélagi minn og hún spurði mig einhvern tímann hvað ég væri að fara að gera um helgina,“ svarar Magga og kveðst á þessum tímapunkti hafa sagst vera að fara á stefnumót með pari. „Hún varð auðvitað hissa, en tók alls ekki illa í það og hefur ekki gert síðan,“ heldur lyfjafræðingurinn áfram.

Kórstarf getur verið ákaflega gefandi og skemmtilegt auk þess sem …
Kórstarf getur verið ákaflega gefandi og skemmtilegt auk þess sem þar geta vinabönd myndast...og makar kynnst eins og í tilfelli Þórunnar. Blaðamaður var í tveimur kórum fyrir slysni þrátt fyrir enga sönghæfileika, annar bassi í báðum. Góður félagsskapur en heimsfrægðin fékk að bíða. Ljósmynd/Aðsend

Þau Magga, Þórunn og Guðjón eru þó sammála um að samband þeirra teljist ekki viðmiðið í vestrænum samfélögum, normið svo höfð sé vond íslenska þar um. Auk þess búa þau saman og eiga dóttur. Ákvörðunin um að hefja sambúð var þó auðveld.

„Þá þurfti ég að finna mér annað húsnæði því pabbi var að flytja í annað húsnæði,“ segir Magga. „Ákvörðunin um sambúð var ekki erfið – það var mjög auðveld ákvörðun. Það var ekki fyrr en í byrjun 2023 sem ég fór að segja við þau að ég væri þreytt á feluleiknum og vildi þá frekar hætta saman ef þau væru ekki tilbúin að segja fólki frá,“ rifjar hún upp.

Þau þremenningarnir hafi því hætt að hittast í tvær vikur, það var í fyrrasumar, en í kjölfarið hafi sameiginleg ákvörðun legið á borðinu – þau segðu öllum sínum nánustu frá sambandinu.

Meira stress að vera að fara að segja fólki

„Og það var eiginlega meira stress að vera að fara að segja fólki þetta en að segja fólki þetta,“ segir Guðjón frá og hin nýfædda Amelía Sól rekur upp hressilegt ungbarnaöskur – skilur tilfinningar föður síns án efa mætavel og veitir honum andlegan stuðning.

„Maður hefur svo sem ekki fundið fyrir miklum fordómum, en kannski aðallega skilningsleysi. Fólki finnst eins og það þurfi að skilja hvers vegna við viljum vera í svona sambandi svo maður þarf alltaf að segja fólki að það þurfi ekkert að skilja það – þetta er bara samband sem ég vil vera í en þú vilt ekki vera í og það er allt í lagi,“ heldur Magga áfram.

Fyrir þá sem ekki óttast að hálsbrjóta sig eða eitthvað …
Fyrir þá sem ekki óttast að hálsbrjóta sig eða eitthvað þaðan af verra er pole fitness hin fínasta líkamsrækt. Þórunn á súlunni í stellingu sem ekki er allra að spreyta sig á. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef aldrei fundið fyrir því að einhver sé dónalegur við mig, en mér hefur stundum fundist það skrýtið að vera í fjölskylduboðum sem aukamaki,“ játar Magga af sambandi þeirra Guðjóns og Þórunnar.

Eðlilega gerir íslensk stjórnsýsla ekki ráð fyrir samböndum af þessu tagi. Guðjón, Þórunn og Margrét eru með sama lögheimili og eins og Magga segir lítur það bara út á pappírum eins og hún sé að leigja hjá þeim. Hvernig skyldu þau þá upplifa að búa þrjú saman undir einu þaki með barn sem tvö þeirra eiga líffræðilega?

„Mér finnst það æðislegt,“ segir Guðjón og Þórunn tekur við: „Mér finnst það bara betra ef eitthvað var. Þetta var mjög gott þegar Guðjón var að vinna fyrir austan, þá var gott að vera ekki einn í viku og hafa Möggu hjá mér,“ segir hún og Magga kemur með sína hlið: „Þó að ég hafi ekki verið búin að plana að flytja inn var það eina rétta skrefið þegar það gerðist, það var orðið svolítið þreytandi að vera alltaf að spyrja hvernig helgin væri hjá þeim. Þegar maður er kominn á þennan aldur nennir maður ekki að vera svona langt í burtu frá makanum sínum endalaust,“ segir Magga og hagar máli sínu eftir þjóðfélagsgildum, hefði í raun átt að segja mökunum sínum.

„Guðjón, Sigurvin frændi minn og ég þar sem við vorum …
„Guðjón, Sigurvin frændi minn og ég þar sem við vorum að syngja í brúðkaupi stjúpsystur minnar í Svíþjóð,“ segir Þórunn frá sem miskunnarlaust var krafin um myndir með svo löngum viðtalstexta. Ljósmynd/Aðsend

Kom mjög náttúrulega

Er algjört jafnræði á milli ykkar sem maka þótt tvö ykkar séu í hjónabandi, þið þrjú eruð jafnsett sem...ja, nú get ég svo sem ekki sagt „par“, en makajafnvægið er fullt og óskorað?

„Já,“ svarar „þríparið“ einum rómi án minnstu umhugsunar þriggja ástfanginna einstaklinga sem hafa fundið hinn hreina tón sín á milli í sambandi sínu.

„Þetta kom mjög náttúrulega,“ segir Þórunn, „þegar Amelía dóttir okkar fæddist kom til dæmis aldrei annað til greina en að hún kallaði okkur Möggu báðar mömmu,“ og Guðjón bendir á athyglisverða staðreynd: „Við erum fyrsta tilfellið þar sem tveir makar eru viðstaddir keisaraskurð,“ en Amelía litla kom þá leiðina í heiminn. Blaðamaður spyr nánar út í þetta og Magga verður fyrir svörum.

„Svo munum við líklegast eignast fleiri börn, alla vega eitt …
„Svo munum við líklegast eignast fleiri börn, alla vega eitt sem ég mun þá ganga með ef ég get. Við sjáum ekki fram á neitt annað en að vera saman í framtíðinni,“ segir Magga, næsta líffræðilega móðir sambandsins fari allt sem ætlað er. Ljósmynd/Aðsend

„Þórunn þurfti að fara í keisaraskurð með Amelíu og við Guðjón vorum búin að vera tvö á fæðingardeildinni allan tímann. Þegar það kom í ljós að hún þyrfti að fara í keisara kom læknirinn til okkar og spurði hvort við vildum ekki örugglega vera bæði viðstödd. Hún þyrfti bara að biðja um leyfi vegna þess að þetta hefði aldrei gerst,“ segir hún frá.

Bætir hún því sérstaklega við að þau hefðu ekki fundið fyrir neinum óþægindum á sjúkrahúsinu þrátt fyrir að vera þrjú í sambandi. „Hjúkrunarfræðingarnir komu inn og vissu strax hver Guðjón var og ég var þá spurð hver ég væri, en ég upplifði ekki að þeim brygði eða yrðu hissa, auðvitað var mun merkilegri atburður í gangi þarna, sem var fæðingin,“ segir Magga frá.

Næsta meðganga er einmitt hennar

Keisaraskurðurinn gekk vel segir Þórunn aðspurð en kveður fæðinguna fram að því hafa verið langa og erfiða. „Ástæðan fyrir því að ég endaði í keisara var að ég komst ekki lengra en átta í útvíkkun svo það var ákveðið að vera ekki að láta mig ganga í gegnum þetta neitt lengur og farið í keisara,“ segir önnur mæðranna í sambandinu og Amelía Sól hjalar glaðlega í bakgrunni símtalsins, greinilega ekki ósátt við að hafa komið í heiminn þá leiðina.

Hvernig sjáið þið þá framtíðina fyrir ykkur í þessari fallegu þrenningu sem þið makarnir myndið?

„Eitt af því sem við höfum hugsað um er að selja báðar eignirnar okkar og kaupa eina saman,“ svara Magga sem verið hefur ötulasti talsmaður fjölskyldunnar í þessu viðtali. „Það er auðvitað enn þá skrýtið þegar kemur að peningum að þau [Þórunn og Guðjón] eiga allt saman,“ heldur hún áfram og kemur svo að þungamiðjunni í framtíðaráætlununum.

„Svo munum við líklegast eignast fleiri börn, alla vega eitt sem ég mun þá ganga með ef ég get. Við sjáum ekki fram á neitt annað en að vera saman í framtíðinni,“ segir Magga og upplýsir þar með um þá stefnu að áður en langt um líður verða þær Þórunn báðar orðnar líffræðilegar mæður í sambandinu.

Stundum erfitt að sofa öll í sama rúmi núna

Aðspurð játar hún að ekki gangi alltaf sem skyldi fyrir þau þrjú að sofa í sama rúminu eftir að Amelía kom í heiminn. „Eftir að hún fæddist höfum við svolítið verið að skiptast á, því stundum er erfitt að sofa í sama herbergi og hún, en áður en hún fæddist sváfum við alltaf saman í sama rúminu, við erum með stórt rúm,“ útskýrir Magga af samlífinu og Þórunn tekur við.

Guðjón svellkaldur og yfirvegaður eins og yfirmenn hjá Sölufélagi garðyrkjumanna …
Guðjón svellkaldur og yfirvegaður eins og yfirmenn hjá Sölufélagi garðyrkjumanna þurfa vafalítið að vera. Ljósmynd/Aðsend

„Við erum með tvö svefnherbergi í íbúðinni og Magga á í raun sitt herbergi og við okkar, en í raun er sofið í báðum eftir því sem hentar,“ segir hún og blaðamaður spyr hvort þau viðmælendurnir þekki fleiri í sama fjölskyldumynstri og þau.

„Ein vinkona mín sem var með mér í pole fitness var í þriggja manna sambandi en þau hættu saman fyrir ári,“ segir Þórunn og kveður þau þrjú sem þar um ræðir öll hafa slitið samvistir.

Þannig að þið eruð í raun komin lengst allra Íslendinga svo vitað sé í þessu fjölskyldumynstri?

„Ég held að það séu nú fleiri í þessu, en við gerðum þetta opinbert af því við nenntum ekki að leyna þessu,“ segir Guðjón, og Þórunn og Magga bæta því við að algengara sé líklega að fólk sé í opnum samböndum án þess að um samband allra sé að ræða.

Margrét Sól Reinharðsdóttir er kærastan í sambandinu en engu að …
Margrét Sól Reinharðsdóttir er kærastan í sambandinu en engu að síður standa þau hjónin Guðjón og Þórunn öll jafnfætis þar sem makar, kirkjan býður bara ekki upp á þriggja aðila hjónabönd enn sem komið er. Ljósmynd/Aðsend

Greinilega minni fordómar en talið var

Líður nú að lokum fróðlegs spjalls og blaðamaður veltir því fyrir sér hvort eitthvað sé að gleymast í lífi „þríparsins“ sem hefur opnað sig og lagt spilin á borðið fyrir Morgunblaðið með frábærri frásögn.

Amelía Sól og Tíbrá una sér vel saman enda tíbrá …
Amelía Sól og Tíbrá una sér vel saman enda tíbrá ljósfyrirbrigði sem tengist einmitt sól. Ljósmynd/Aðsend

„Það er kannski eitt sem mér dettur í hug,“ segir Þórunn glettnislega, „eftir að við sögðum fjölskyldum og vinnufélögum frá þessu sambandi okkar var ákveðið á vinnustöðunum að við mættum öll taka báða makana með á árshátíðir og jólahlaðborð í fyrra.“

Undir lokin eru þau Guðjón, Þórunn og Margrét sammála um að þau hafi hlotið meiri með- en mótbyr í íslensku samfélagi, fólk sé þá alla vega ekkert að viðra skoðanir sínar við þau hafi það eitthvað að athuga við það fyrirkomulag að þrír einstaklingar felli hugi saman og lifi fjölskyldulífi.

„Þegar ég kem með Amelíu í vinnuna taka allir henni sem mínu barni eins og ekkert sé,“ segir Margrét Sól Reinharðsdóttir sem á lokaorð viðtalsins, „þannig að fólk hefur greinilega minni fordóma en maður býst við.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert