Ganga sátt af fundi eftir „einlæga“ afsökunarbeiðni

Kristín Björnsdóttir við komu á fund borgarstjóra.
Kristín Björnsdóttir við komu á fund borgarstjóra. Eyþór Árnason

„Við erum sammála um það að þetta hafi verið góður fundur og að borgarstjóri baðst einlæglega afsökunar á ummælum sem lýsti því að hann áttaði sig ekki á því að þeim yrði tekið á þennan hátt,“ segir Kristín Björnsdóttir, formaður Kennarafélags Reykjavíkur.

Ræddi hún við mbl.is ásamt Jónínu Einarsdóttur, fulltrúa leikskólakennara, eftir fund fulltrúa kennarafélaga í Reykjavík með borgarstjóra í ráðhúsinu í hádeginu í dag.

Að sögn Kristínar lögðu kennarar það til að þessu yrði fylgt eftir og að annar fundur yrði settur „til að meta stöðuna,“ segir Kristín.

Hún segir kennarana ganga sátta af fundinum.

„Vonandi náum við líka sátt í skólasamfélaginu, því skólafélagið reis upp,“ segir Kristín. Vísar hún þá m.a. til þess þegar um 200 kennarar mótmæltu orðum Einars við ráðhúsið í gær.

Vonar að kennarar nái sáttum 

Kristín sagði í samtali við mbl.is í gær að hún þekkti til þess að kennarar hefðu sagt upp í kjölfar orða Einars.

„Ef að þeir kennarar sem hafa tekið þetta skref, að segja upp vegna ummælanna, þá vonast ég til þess að sættir náist,“ segir Kristín.

„Það eru margir þættir sem leiða fólk að ákvörðun um uppsögn. Við erum einnig á viðkvæmum stað í kjaraviðræðum og fólk þarf að gera þetta upp við sig,“ bætir hún við.

Minni veikindi hjá fagfólki

Á fundinum var einnig farið yfir það sem fundarmenn telja að betur megi fara í skólasamfélaginu.

Jónína, leikskólastjóri á Stakkaborg, var einn fulltrúa leikskólakennara á fundinum. Segir hún að veikindi kennara hafi m.a. verið rædd.

„Við gátum meðal annars komið því á framfæri að í þeim skólum þar sem fagfólki hefur fjölgað hefur veikindadögum fækkað. Þannig við höfum mikla þörf á því að fjölga kennurum,“ segir Jónína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert