Leiðir uppstillingu í báðum Reykjavíkurkjördæmum

Lárus Sigurður Lárusson.
Lárus Sigurður Lárusson. Ljósmynd/Ása Steinarsdóttir

Lárus Sigurður Lárusson lögmaður mun leiða uppstillingu í báðum Reykjavíkurkjördæmum fyrir Framsóknarflokk. Í samtali við mbl.is segir hann þetta hafa verið ákveðið í gærkvöldi á tvöföldu kjördæmaþingi Reykjavíkurkjördæmanna tveggja.

Segir hann að á fundinum hafi einnig verið endurnýjað kjör í kjörstjórn kjördæmanna sem hann hafi leitt frá síðustu sveitarstjórnakosningum.

„Þannig að ég mun leiða hana áfram í þessari uppstillingu og það var send út auglýsing núna í dag til félagsmanna fyrir þá sem vildu gefa kost á sér eða benda á einhvern og viðbrögðin hafa ekki staðið á sér,“ segir Lárus.

Uppstilling verði samþykkt á aukakjördæmaþingi

Tekur hann fram að vinna sé nú komin á fullt enda hafi flokkurinn skamman tíma til þess að skila tillögu að uppstillingu til kjördæmastjórnarinnar í Reykjavíkurkjördæmunum.

Gerir hann ráð fyrir að uppstilling verði svo samþykkt á sérstöku aukakjördæmaþingi dagana 26.-27. október.

„Þá þurfum við að vera búin að stilla upp og skila þessum lista til stjórnar kjördæmasambandanna.“

Og er þetta farið að taka á sig einhverja mynd, einhverjar vendingar?

„Nei, nei, það eru svo sem engar stórar vendingar en eins og ég segi þá hafa viðbrögðin ekkert látið standa á sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert