Varaþingmaðurinn Lenya Rún Taha Karim hefur ákveðið að bjóða sig fram í forystusæti í prófkjöri Pírata í Reykjavíkurkjördæmunum.
Frá þessu greinir Lenya Rún í færslu á Facebook en síðustu þrjú ár hefur hún verið varaþingmaður Pírata og var á dögunum kjörin nýr formaður Ungra Pírata.
„Á síðustu dögum hefur staðan í stjórnmálum tekið ýmsum breytingum og ímynda ég mér að fólkið í landinu sé orðið spennt fyrir raunverulegum breytingum - breytingum á því hvernig stjórnmál eru stunduð og breytingum á stjórnmálamönnum sjálfum,“ skrifar Lenya Rún í færslunni.
Hún segist sækjast eftir því að leiða listann í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu og segir að það sé kominn tími til að hleypa nýju fólki að borðinu sem sé eðlilegt og heilbrigt í öllum flokkum.