Prófkjör hjá Pírötum: Auglýsa eftir framboðum

Píratar munu þurfa að hafa hraðar hendur en prófkjör verða …
Píratar munu þurfa að hafa hraðar hendur en prófkjör verða haldin út um allt land eftir fáeina daga. Ljósmynd/Píratar

Píratar munu efna til prófkjörs í öllum kjördæmum dagana 20.–22. október þar sem kosið verður um sæti á framboðslista flokksins.

Tilkynningar um framboð skulu berast á vef Pírata.

Kynningar frambjóðenda munu fara fram dagana 19. og 20. október en kosningarnar sjálfar hefjast 20. október, klukkan 16.00 og lýkur þann 22. október, klukkan 16.00.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá kjörstjórn Pírata.

Píratar gefi ekki afslátt af lýðræðinu

„Þessar kosningar bera að með skömmum fyrirvara en Píratar hafa aldrei gefið afslátt af lýðræðinu og við ætlum sannarlega ekki að gera það nú.

Þess vegna finnst okkur brýnt að halda prófkjör þar sem allir Píratar geta haft sitt að segja um úrslitin og hverjir verða í framboði í þessum mikilvægu kosningum fram undan,“ er haft eftir Baldri Karli Magnússyni, formanni kjörstjórnar.

Kosningarétt í prófkjöri hafa allir þeir sem eru skráðir í Pírata samkvæmt skráningarkerfi x.piratar.is.

Úrslitin bindandi fyrir helming þingsæta

„Úrslit prófkjöra eru bindandi fyrir helming þingsæta hvers kjördæmis fyrir sig, námundað upp á við. Raða skal í efstu sæti framboðslista í hverju kjördæmi samkvæmt úrslitum forgangskosningar með Schulze-aðferð,“ segir í tilkynningunni sem heldur áfram:

„Kjörstjórn Pírata raðar í sæti neðar á lista með fjölbreytni og jafnrétti að leiðarljósi ásamt því að taka mið af úrslitum prófkjörsins. Kjörstjórn er heimilt að bæta öðrum sem ekki voru í prófkjöri á listann með samþykki þeirra sjálfra og í samráði við þau sem hlutu bindandi kjör á listann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert