Sendi ítrekað typpamyndir á 15 ára stúlku

Maðurinn sendi myndirnar í gegnum forritið Snapchat.
Maðurinn sendi myndirnar í gegnum forritið Snapchat.

Tuttugu og átta ára karlmaður hefur verið dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa ítrekað sent 15 ára stúlku kynferðislegar ljósmyndir af sjálfum sér í gegnum samskiptaforritið Snapchat, en á myndunum var hann nakinn og mátti sjá beran getnaðarlim hans.

Maðurinn neitaði sök í málinu og sagðist hafa verið símalaus á tímabilinu sem myndirnar voru sendar og geti því ekki hafa sent þær. í dómi Héraðsdóms Reykjaness kemur fram að maðurinn geri hann athugasemd við rannsókn lögreglu og taldi hann lögreglunaekki hafa haft heimild til að rannsaka notkun símanúmers hans óháð símtæki.

Fékk 20-30 myndir sendar

Stúlkan sagðist hafa fengið 20-30 myndir sendar í það heila frá manninum, en væri með skjáskot af 16 myndum. Áttu sendingarnar sér stað í desember 2021 og í janúar 2022.

Þegar hún var spurð af hverju hún hefði ekki blokkað manninn sagðist hún fá svona nektarmyndir daglega frá fullt af strákum á Snapchat, bæði frá íslenskum og erlendum og hún væri oft beðin um myndir af sjálfri sér.

Hún sagðist hafa sagt manninum að „fokka sér“ er hann óskaði eftir nektarmyndum af henni og upplýsingum um hvar hún byggi.

Fengu gögn frá Snapchat gegnum dómsmálaráðuneytið

Við rannsókn málsins óskaði lögregla gagna frá Snapchat og eftir réttarbeiðni í gegnum dómsmálaráðuneytið bárust upplýsingar frá dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna með upplýsingum um hvaða netfang og símanúmer væru á bak við notandann, sem og upplýsingar um símtæki sem hefðu verið notuð o.s.frv.

Óumdeilt er í málinu að stúlkan fékk sendar nektarmyndir af manninum í gegnum Snapchat. Voru þær sendar frá reikningi sem var stofnaður 17. desember 2021 með Samsung Galaxy A12 síma. Var reikningnum lokað 30. desember þetta sama ár, en endurvakinn 10. janúar með Samsung Galaxy S7 síma og aftur lokað síðar sama dag með sama síma. Staðfesti maðurinn að hafa átt slíkan síma.

Staðfesti að myndirnar væru af sér

Staðfesti maðurinn að myndirnar væru af sér og að hann hefði tekið þær. Hann hefði hins vegar hent símanum sem myndirnar voru á og að það hefði verið árið 2013 eða 2014. Hins vegar voru nokkrar myndanna fjögurra til fimm mánaða gamlar að hans sögn, en hann breytti framburði sínum síðar og sagði myndirnar vera fjögurra til fimm ára gamlar.

Síðar sagðist maðurinn hafa týnt símanum á djamminu 10. desember og ekki fengið sér nýjan síma fyrr en 5. febrúar. Því gæti hann ekki hafa sent myndirnar.

Ótrúverðugur framburður

Þegar hann var spurður nánar um hvernig hann týndi símanum sagðist hann hafa hent símanum frá sér en ekki týnt honum. Febrúar dagsetningin passaði reyndar ekki alveg við samskipti sem hann átti við móður sína sem sýndu að hann hafði keypt sér síma síðar.

Mat dómurinn það þannig að ósamræmi væri í frásögn mannsins, en einnig væri ósamræmi milli útskýringa hans og fjölskyldu hans á því hvaða tímabil hann var símalaus. Er framburður hans því metinn ótrúverðugur.

Stúlkan sagðist hafa átt við andleg veikindi að stríða og hefði hræðilegt minni. Henni hafi þó liðið illa að sjá myndirnar og þær verið óvelkomnar.

Skýring mannsins heldur ekki vatni 

Telur dómurinn að það geti ekki staðist að einhver ókunnur aðili hafi fundið símann 10. desember og í honum fundið netfang sem maðurinn stofnaði nokkrum árum áður og stofnað Snapchat-reikning og farið að senda stúlkunni nektarmyndir af manninum.

Er það því mat dómsins að ekki sé hægt að vefengja með skynsamlegum rökum að hann hafi gerst sekur um athæfið.

Stúlkan er í dag orðin 18 ára. Voru henni dæmdar 250 þúsund í miskabætur. Tekið er fram að ekki liggi fyrir gögn um áhrif myndsendinganna á hana, en að miðað við aldur megi leggja til grundvallar að hún hafi ekki haft fullan þroska til að gera sér grein fyrir áhrifum af brotunum, en þau séu almennt til þess fallin að valda miska.

Maðurinn þarf jafnframt að greiða rúmlega 1,1 milljón í sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka